Írskt bankalán vekur reiði

Útibú Anglo Irish Bank í Belfast.
Útibú Anglo Irish Bank í Belfast. Reuters

Willie McAteer, fjármálastjóri írska bankans Anglo Irish Bank, fékk 8 milljónir evra, eða sem svarar 1,2 milljörðum króna, að láni frá bankanum til að greiða fyrir lán vegna hlutabréfakaupa í bankanum. Lánið var án endurkröfuréttar sem þýðir að McAteer þurfti ekki að greiða það ef illa færi.

Tildrög fléttunnar voru þau að McAteer hafði tekið lán sem var tryggt með 3,5 milljón hlutum í bankanum. Þegar gengi bréfanna lækkaði þurfti hann að leggja fram meira fé og íhugaði því að selja bréfin. 

Stjórnendur bankans lögðust hins vegar gegn því með þeim rökum að það myndi hafa slæm áhrif á gengi bréfa í bankanum og var því höggvið á hnútinn með því að semja um áðurnefnt aukalán til handa McAteer, að því er fram kemur á vef Irish Times.

Fléttan var gerð árið 2008 og því skömmu áður en alþjóðafjármálakreppan skall á.

Málið hefur vakið mikla athygli á Írlandi og ýtt undir reiði í garð fjármálalífsins vegna þeirrar hegðunar sem talin er hafa átt þátt í að Írar standa nú frammi fyrir gífurlegum efnahagsvanda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert