Skipulagðar árásir á fréttamenn

Átök hafa átt sér stað í miðborg Kaíró í dag.
Átök hafa átt sér stað í miðborg Kaíró í dag. Reuters

Sænskur blaðamaður er alvarlega særður eftir að hafa verið laminn í Kaíró í Egyptalandi. Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, staðfesti þetta í kvöld og sagði að sænska sendiráðið ynni að því að tryggja öryggi sænskra borgara í Egyptalandi.

Fjöldi erlendra blaðamanna sem flutt hafa fréttir af mótmælunum í Egyptalandi hafa mátt sæta barsmíðum í dag. Atvikin eru það mörg að ljóst er að um skipulagt ofbeldi er að ræða.

Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, fordæmdi í kvöld árásir á blaðamenn og sagði að þessar árásir væri hneyksli og eitthvað sem ekki væri hægt að sætta sig við.

Tveggja fréttamanna arabísku sjónvarpsstöðvarinnar Al Jazeera var saknað í sex klukkutíma í dag, en þeir fundust heilir á húfi í kvöld. Talsmaður Al Jazeera sagði í kvöld að sjónvarpsstöðin myndi halda áfram að segja fréttir af mótmælunum þrátt fyrir árásir á fréttamenn stöðvarinnar en farið yrði yfir öryggisreglur.

Mannfall hefur orðið í átökum stuðningsmanna og andstæðinga Hosni Mubarak forseta í dag og margir hafa særst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert