Afsalar sér doktorsgráðu

Karl-Theodor zu Guttenberg.
Karl-Theodor zu Guttenberg. Reuters

Karl-Theodor zu Guttenberg, varnarmálaráðherra Þýskalands, lýsti því yfir í kvöld að hann hefði afsalað sér doktorsnafnbót, sem hann hlaut árið 2007. Ásakanir hafa komið fram um að stór hluti doktorsritgerðar hans sé fenginn úr öðrum ritum án þess að heimilda sé getið.

Guttenberg viðurkenndi í ræðu, sem hann flutti í Kelkheim, nálægt Frankfurt, í kvöld, að hann hefði gert alvarleg mistök.

Guttenberg, sem er 39 ára, hefur verið vinsælasti þýski ráðherrann en kröfur hafa nú komið fram um að hann segi af sér. 

Ásakanir um ritstuld komu fyrst fram í síðustu viku og þá sagðist Guttenberg ekki ætla að nota titilinn „tímabundið" á meðan málið væri rannsakað.  Guttenberg skilaði ritgerðinni, sem er 475 blaðsíður og fjallar um þróun stjórnarskráa Bandaríkjanna og Evrópusambandsins, árið 2007 og háskólinn í Beyreuth samþykkti hana. Skólinn er nú að rannsaka málið.

Þýska tímaritið Der Spiegel sagði, að Guttenberg hefði í að minnsta kosti 62 tilfellum notað texta úr blaðagreinum eða ritgerðum án þess að geta heimilda. Sueddeutsche Zeitung sagði, að aðstoðarmenn Guttenbergs á þýska þinginu hefðu aðstoðað hann við ritgerðarsmíðina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert