Utanríkisráðherra Frakklands segir af sér

Michele Alliot-Marie fráfarandi utanríkisráðherra Frakklands.
Michele Alliot-Marie fráfarandi utanríkisráðherra Frakklands. Reuters

Utanríkisráðherra Frakklands, Michele Alliot-Marie, tilkynnti í dag afsögn sína eftir að hafa sætt gagnrýni vikum saman vegna meintra óeðlilegra tengsla hennar við hina föllnu ríkisstjórn Túnis. Þrátt fyrir afsögnina ítrekar Alliot-Marie þá afstöðu sína að hún hafi ekki gert neitt rangt.

„Undanfarnar vikur hef ég sætt pólitískum árásum og fjölmiðlum beitt gegn mér til að vekja grunsemdir og setja fram hálfsannleik og alhæfingar," skrifaði Alliot-Marie í uppsagnarbréfi sínu til Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta. „Síðustu tvær vikur hefur einkalíf fjölskyldu minnar fengið að líða fyrir stöðugar árásir af hendi vissra fjölmiðla og ég get ekki samþykkt að sumt fólk noti þennan miðil til að grafa undan trúverðugleika utanríkisstefnu Frakklands." Alliot-Marie var skipuð í embætti utanríkisráðherra í desember, fyrst franskra kvenna.

Sarkozy mun ávarpa frösku þjóðina í kvöld til að greina frá sinni afstöðu til ástandsins í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku.  Mótmælaaldan þar hefur veikt ríkisstjórn Sarkozy, vegna fyrrum stuðnings hennar við menn eins og Zine El Abidine Ben Ali í Túnis og Hosni Mubarak í Egyptalandi. Þar hefur Alliot-Marie sætt mestri gagnrýni, ekki síst eftir að hún bauð fram stuðning Frakklands við óeirðasveitir lögreglu í Túnis í janúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert