Höggþung eiginkona

„Herra Murdoch, eiginkona þín býr yfir öflugum vinstri króki," sagði  Tom Watson, þingmaður breska Íhaldsflokksins, þegar bresk þingnefnd yfirheyrði fjölmiðlakónginn Rupert Murdoch í gær.

Það vakti alþjóðlega athygli þegar Wendy Deng, eiginkona Murdochs, stökk upp og barði mann sem reyndi að ráðast á eiginmann hennar í fundarsalnum og sletta á hann raksápu af diski. 

Á sjónvarpsmyndum sást þegar Wendy, sem er 42 ára, réðist á árásarmanninn og sló hann í höfuðið með þeim afleiðingum að raksápan lenti mestöll í andliti hans. 

Árásarmaðurinn heitir Jonathan May-Bowles, 26 ára gamanleikari og aðgerðarsinni. Hann var meðal áheyrenda í fundarsalnum og beið átekta eftir tækifæri til að kasta „rjómaköku" á Murdoch, sem er áttræður.

Áður hafði hann skrifað á Twitter-vefinn, að hann væri í fundarsalnum. Hann skrifaði síðan: „Ég ætla nú að gera mun betri hluti en ég hef nokkru sinni áður gert."  

May-Bowles svaraði ekki spurningum, sem blaðamenn kölluðu til hans, þegar lögreglumenn leiddu hann á brott í handjárnum. 

Þegar fundurinn hófst að nýju eftir þetta uppnám var Murdoch jakkalaus en smá sletta af raksápu lenti á öxl hans. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert