15 milljarðar til Líbíu

Á fundi helstu þjóðarleiðtoga heims í gær um málefni Líbíu var ákveðið að láta uppreisnarmönnum í Líbíu 15 milljarða Bandaríkjadollara í té til uppbyggingarstarfs í landinu. Féð hafði verið fryst í fjármálastofnunum víða um heim eftir að uppreisn hófst í landinu.

Fundurinn ber yfirskriftina „Vinir Líbíu“ og var haldinn að frumkvæði Nicolas Sarkozy og David Cameron. Á fundinum voru einnig forystumenn Sameinuðu þjóðanna og NATO, auk leiðtoga uppreisnarmanna. Á fundinum lýstu leiðtogar ýmissa þjóða yfir stuðningi við þjóðarráð uppreisnarmanna.

Sarkozy hvatti uppreisnarmenn til að hefja ferli fyrirgefningar og sátta.

Foringi uppreisnarmanna, Mustafa Abdel Jalil, sagði á fundinum að Líbíumenn hefðu sýnt bæði hugrekki og einurð með því að berjast gegn Gaddafi, en hann segir að stöðugleika sé þörf. „Núna er allt í ykkar höndum,“ sagði hann í ávarpi til líbísku þjóðarinnar. „Það er undir ykkur komið að við náum fram því sem við lofuðum; stöðugleika, friði og sáttum.“

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, sagði á fundinum, að NATO myndi halda áfram aðgerðum sínum í Líbíu á meðan lífi óbreyttra borgara væri ógnað.

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hvatti uppreisnarmenn til að vera á verð gagnvart öfgamönnum innan sinna raða og lagði áherslu á að þeir gættu þess að vopn kæmust ekki í rangar hendur.

„Alþjóðasamfélagið, undir forystu Sameinuðu þjóðanna, þarf að aðstoða líbísku þjóðina og leiðtoga hennar í átt að lýðræði, þar sem ofbeldi er ekki notað sem pólitískt stjórntæki,“ sagði Clinton.

Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði að hann myndi vinna með Öryggisráðinu að því að SÞ aðstoðaði við uppbyggingu í Líbíu. Hann benti á að líklega hefðu 860.000 manns yfirgefið landið á undanförnum mánuðum, almannaþjónusta væri úr skorðum og vatnsskortur væri mikill í landinu.

Ekki voru leiðtogar allra þjóða tilbúnir til að viðurkenna þjóðarráðið sem réttmæt yfirvöld í Líbíu. Þeirra á meðal eru Kínverjar, auk Suður-Afríku.

Í gær hvatti Gaddafi þjóð sína til skæruhernaðar í ávarpi sem sent var út á gervihnattastöð, en á morgun rennur út frestur sem uppreisnarmenn gáfu stuðningsmönnum Gaddafis til að leggja niður vopn. „Ef þeir vilja langvarandi stríðsástand, þá skulum við láta svo vera. Ef Líbía stendur í ljósum logum, hver getur fylgst með því? Látum Líbíu brenna, “ sagði Gaddafi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert