Ætlar að vera forseti til 2030

Hugo Chavez forseti Venesúela ætlar að vinna bug á krabbameininu.
Hugo Chavez forseti Venesúela ætlar að vinna bug á krabbameininu. Reuters

Hugo Chavez, forseti Venesúela, segist fullviss um að hann muni vinna bug á krabbameininu sem hefur hrjáð hann undanfarið og að hann muni vera forseti til ársins 2030.

Chavez hefur undanfarna mánuði verið í krabbameinsmeðferð en læknar fjarlægðu æxli úr honum í júní síðastliðnum. Hann hefur fullan hug á að bjóða sig fram til forseta í kosningunum sem fara fram í landinu á næsta ári. Kjörtímabilið er sex ár og hann segist ætla að bjóða sig fram aftur árið 2019 og 2024 með Guðs hjálp. 

Margir hafa efast um að Chavez geti gegnt embættinu vegna veikinda sinna en hann blæs á allar slíkar efasemdaraddir.

Forsetinn ávarpaði mannfjölda sem hafði safnast saman fyrir framan forsetahöllina. Hann var með derhúfu á höfði og var klæddur hafnaboltahanska á annarri hendi og hélt á hafnarbolta. Hann gagnrýndi þá sem efuðust um heilsufar hans og sagðist fórnarlamb ómannlegrar áróðursherferðar.

Forsetar geta setið eins mörg kjörtímabil og þeir vilja í Venesúela svo lengi sem þeir bjóða sig fram og ná kjöri. Chavez hefur nú gegnt embættinu frá árinu 2009 en hann er 57 ára gamall. Hann nýtur stuðnings um 50% þjóðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert