Lofa stöðugleika og trausti

Forystumenn í efnahagsmálum G20 ríkjanna luku fundi sínum í París í dag á því að lofa því að vinna að stöðugleika og endurheimtu trausti á fjármálamörkuðum. Órói hefur verið á mörkuðum vegna ótta við að skuldavandi Evrópu kunni að valda heimskreppu.

Úrslitastundin hvað varðar efnahagserfiðleikana sem staðið hafa í tvö ár og hafa náð langt út fyrir Grikkland þar sem þeir hófust gæti orðið á leiðtogafundi Evrópusambandsins síðar í þessum mánuði.

„Hvað varðar að bregðast við efnahagsvanda heimsins þá verð ég að segja að leiðtogafundur Evrópu 23. október mun ráða úrslitum - allir vita það og skilja mikilvægið - einnig geta Bandaríkjanna til að skilgreina skuldbindingar sínar i fjárlögum og skuldbinding Kínverja að ná jafnvægi í vexti sínum,“ sagði Francois Baroin, fjármálaráðherra Frakklands.

Helstu efnahagsveldi heimsins halda áfram að þrýsta á Evrópuríkin að leysa úr skuldavanda sínum. Drög að yfirlýsingu fundarins sögðu að G20 ríkin myndu nýta björgunarsjóðinn sem best til að koma í veg fyrir að vandinn breiðist enn meira út.

Bandaríkin vilja gjarnan að Evrópumenn bregðist við af meiri ákveðni.

„Ég get sagt að eftir ítarlegar viðræður við þá undanfarnar sex vikur eða svo, og auðvitað líka að teknu tilliti til þess sem þeir segja opinberlega, þá er ég vonbetri vegna stefnunnar og hraðans sem þeir eru nú á og vegna þess hvernig þessi stefna er að koma í ljós, en ég, eins og þið vitið, þá er þetta allt í smáatriðunum og það er mjög erfitt að dæma um hvaða áhrif eitthvað mun hafa fyrr en þú sérð það í grundvallaratriðum en ég vil endurtaka það sem ég sagði í yfirlýsingu minni: Ef þú lítur á sögu Evrópu og þetta mikla verkefni samþættingar undanfarna áratugi, þegar Frakkland og Þýskaland eru sammála og þegar þau beita sér geta þau gert stórkostlega hluti,“ sagði Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna.

G20 fundurinn var haldinn á sama tíma og mótmæli hafa verið um alla Evrópu til að lýsa samstöðu með „Occupy Wall Street“ hreyfingunni sem byrjaði í New York og krefst meiri efnahagslegs jöfnuðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert