Grikkir gefi ekki eftir stjórn

Atvinnulausir Grikkir bíða í röð fyrir utan vinnumálastofnun landsins. Mynd …
Atvinnulausir Grikkir bíða í röð fyrir utan vinnumálastofnun landsins. Mynd úr safni. Reuters

Grikkir ætla ekki að gefa eftir stjórn á fjármálum sínum til Evrópusambandsins en Þjóðverjar hafa lagt til að það verði gert að skilyrði fyrir öðrum björgunarpakka fyrir þá. AFP-fréttastofan hefur þetta eftir heimildarmönnum úr grísku ríkisstjórninni.

„Grikkir munu ekki ljá máls á þeim möguleika. Það kemur ekki til mála að við samþykkjum  slíkt, þetta snýst um fullveldi þjóðarinnar,“ hefur AFP eftir heimildarmanni sínum. Slík aðgerð myndi kalla á breytingar á sáttmála Evrópusambandsins.

Breska blaðið The Financial Times greindi frá þessari tillögu Þjóðverja í gær. Stjórnvöld í Þýskalandi telja þetta bestu leiðina til að tryggja að þau skilyrði sem sett verða fyrir skuldalækkun gangi eftir.

Nú er unnið að því að útfæra afskriftir skulda Grikklands sem leiðtogar ESB samþykktu á síðasta ári. Rætt er um að um 70% skulda Grikklands, eða um 130 milljarðar evra, verði afskrifuð.

Ef tillögunni verður hrundið í framkvæmd fæli það í sér algerlega nýtt skref í valdaframsali frá þjóðríki til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Tillagan felur í sér að ESB fengi neitunarvald varðandi fjárlagafrumvarp Grikklands ef það er ekki í takt við markmið sem leiðtogar sambandsins setja. Jafnframt er gert ráð fyrir að fjármálaráðherrar evrulandanna tilnefni umsjónarmann sem fylgist með öllum stærri ákvörðunum í sambandi við útgjöld.

ESB taki yfir fjármál Grikklands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert