Svíar sagðir aðstoða Sáda á laun

Reuters

Sænsk yfirvöld hafa undanfarin ár unnið að því á laun að aðstoða Sádi-Arabíu við að koma á fót vopnaverksmiðju til að framleiða eldflaugar gegn skriðdrekum. Þetta kemur fram í leyniskjölum sem nýverið hafa verið gerð opinber og sænska ríkisútvarpið svipti hulunni af í gær.

Það er sænska varnarmálarannsóknarstofnunin (FOI) sem hefur unnið að hinu svonefnda Simoom-verkefni frá árinu 2007. Bygging verksmiðjunnar er þó enn ekki hafin.

Svíar hafa áður selt Sádi-Aröbum vopn en í leyniskjölunum kemur fram að verkefnið sé á ystu mörkum þess sem sænsk yfirvöld geti leyft sér í þessum efnum.

FOI heyrir undir varnarmálaráðuneytið en það hefur neitað að tjá sig um málið og ber fyrir sig að skjölin séu trúnaðarmál.

Neitar tilvist verkefnisins

Jan Olov Lind, yfirmaður FOI, neitar því í samtali við sænska ríkisútvarpið að stofnunin standi í nokkru slíku verkefni í Sádi-Arabíu.

„Nei, og ég vil ekki tjá mig um viðræður sem gætu eða gætu ekki hafa átt sér stað. Þær viðræður eru trúnaðarmál,“ segir Lind.

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra, lét lítið hafa eftir sér um málið við fjölmiðla í gær en sagðist gera ráð fyrir að stofnunin hefði farið að öllum lögum og reglum.

Jan Erik Lövgren, aðstoðarframkvæmdastjóri eftirlitsstofnunar sænska ríkisins með vopnaútflutningi, staðfestir hins vegar að FOI áformi ennþá að reisa verksmiðjuna.

Þá hafa nokkrir fyrrverandi starfsmenn FOI staðfest tilvist verkefnisins við sænska ríkisútvarpið.

Ímynd Svíþjóðar löskuð

Talsmaður Umhverfisflokksins, Gustav Fridolin, fór í gær fram á að stjórnarskrárnefnd sænska þingsins rannsakaði málið sem hann segir skaða ímynd landsins. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafi beitt ofbeldi til þess að bæla niður lýðræðisraddir heima fyrir og í nágrannalöndum sínum.

„Það að Svíþjóð skuli hjálpa Sádum að byggja vopnaverksmiðju á sama tíma og Sádar kúga þá sem krefjast mannréttinda er einstakt dæmi um hræsni,“ hefur Dagens Nyheter eftir Fridolin.

Útskýri tafir á lagasetningu

Svíar hafa lengi verið umsvifamiklir vopnasalar í heiminum en Svíþjóð er sjöunda stærsta vopnasöluríki heims. Þar hefur verið krafa um að settar verði strangari reglur um vopnasölu og að vopn verði aðeins seld til lýðræðisríkja.

„Allir sænsku stjórnmálaflokkarnir hafa alltaf sagt að þeir vilji lög um að lýðræði sé skilyrði fyrir vopnasölu. Lagasetningunni hefur svo seinkað og ríkisstjórnin tafið fyrir henni. Hér er komin útskýring á af hverju það er,“ segir Gustav Fridolin, talsmaður Umhverfisflokksins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert