Portúgalir afnema tímabundið frídaga

Mótmæli gegn efnahagsástandinu í Portugal.
Mótmæli gegn efnahagsástandinu í Portugal. Reuters

Stjórnvöld í Portúgal hafa gripið til örþrifaráða til þess að reyna að koma böndum á efnahagsástandið í landinu og hafa nú í hyggju að afnema fjóra af 14 frídögum í landinu. Aðgerðin verður tímabundin og mun gilda í fimm ár frá og með næsta ári. Um er að ræða tvo trúarlega frídaga og tvo almenna frídaga.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að samið hafi verið sérstaklega við Vatíkanið um trúarlegu frídagana. Þá segir að Portúgalskir ráðamenn hafi þegar meðal annars skorið niður laun opinberra starfsmanna og hækkað skatta til þess að takast á við hallann á rekstri ríkisins.

Þeir fjórir dagar sem um er að ræða eru allraheilagra dagur 1. nóvember, Corpus Christi-hátíðin sem er 60 dögum eftir páska, 5. október þegar fagnað er stofnun portúgalska lýðveldisins árið 1910, 1. desember þegar því er fagnað að Portúgalir losnuðu undan spænskum yfirráðum 1640.

Vonast er til þess að tímabundið afnám frídaganna leggi sitt að mörkum til þess að auka samkeppnishæfni portúgalsks efnahagslífs og stuðli að auknum hagvexti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert