Obama fundaði með Evrópuleiðtogum um evrusvæðið

Mario Monti, Angela Merkel og Barack Obama ræddu um mikilvægi …
Mario Monti, Angela Merkel og Barack Obama ræddu um mikilvægi þess að styrkja evrusamstarfið. Hér sjást þau á fundi G8 ríkjanna, ásamt David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sem fram fór í Bandaríkjunum í síðasta mánuði. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, ræddi við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, í dag um mikilvægi þess að styrkja evrusvæðið. Þetta segir talsmaður Bandaríkjaforsetans.

„Leiðtogarnir voru sammála um að mikilvægt væri að grípa til aðgerða til að styrkja evrusvæðið og vöxt í Evrópu og á alþjóðavísu,“ segir Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins.

Hann bætti við að leiðtogarnir hefðu sammælst um að vera áfram í sambandi vegna málsins fyrir fund G20-ríkjanna, sem fram fer í Mexíkó dagana 18.-19. júní.

Evrópuleiðtogar eru undir miklum þrýstingi að styrkja spænska bankakerfið sem stendur höllum fæti. Menn vilja koma í veg fyrir að fjórða ríkið á evrusvæðinu þurfi að sækjast eftir neyðarláni.

Á sama tíma búa Grikkir sig undir að endurtaka þingkosningarnar í landinu. Margir óttast að niðurstaða kosninganna geti leitt til þess að ekkert verði af því að Grikkir fái afgreitt neyðarlán frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og að þeir dragi sig úr evrusamstarfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert