Assange fær hæli í Ekvador

Julian Assange.
Julian Assange. AFP

Stjórnvöld í Ekvador hafa ákveðið að veita Julian Assange, stofnanda Wikilieaks, pólitískt hæli í landinu. Þetta kemur fram í frétt AFP fréttastofunnar. Assange hefur haldið til í sendiráði Ekvador í London í um tvo mánuði en hann á yfir höfði sér framsal til Svíþjóðar vegna meintra kynferðisbrota þar í landi.

Utanríkisráðherra Ekvador, Ricardo Patino, hefur sakað bresk stjórnvöld um að hóta því opinberlega að ráðast inn í sendiráð þeirra í London og handtaka Assange.

Patino segir að Assange sé veitt hæli þar sem íbúar Ekvador telji hættu á að mannréttindi hans verði fótum troðin.

„Stjórnvöld í Ekvador eru trú hefð sinni um að vernda þá sem leita hælis hjá okkur og hefur því ákveðið að veita Assange hæli,“ sagði Patino á blaðamannafundi. Þá sagðist hann vonast til þess að stjórnmálasamband Ekvador og Bretlands hefði ekki skaðast vegna málsins.

Nokkur fjöldi stuðningsmanna Assange er saman kominn fyrir utan sendiráð Ekvador í London. Eru fregnir um að hann fái hæli í Ekvador að spyrjast út meðal mannfjöldans. Fréttaritari BBC segir að stuðningsfólkið sé mjög ánægt með fréttirnar en að bresk stjórnvöld segi þetta engu breyta, þau ætli sér að handtaka Assange. Fari hann út úr sendiráðinu verði hann handtekinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert