Vissi ekki af þátttöku sinni í drápinu á Bin Laden

Osama Bin Laden.
Osama Bin Laden. AFP

Pakistanski læknirinn sem aðstoðaði bandarísk stjórnvöld að hafa hendur í hári Osama Bins Ladens í fyrra, segist ekki hafa gert sér grein fyrir að hann væri að taka þátt í drápinu á Al-Qaeda-leiðtoganum. Í dag eru liðin 11 ár frá árásunum á tvíburaturnana í New York. Lækninum var í kjölfarið rænt af pakistönsku leyniþjónustunni, ISI, sem hann segir líta á Bandaríkin sem sinn versta óvin.

Læknirinn Shakil Afridi kom fram í viðtali á Fox-sjónvarpsstöðinni, í fyrsta sinn eftir að hann var fangelsaður. Hann sagðist ekki hafa litið svo á að hann þyrfti að flýja eftir drápið á Bin Laden en hafi í kjölfarið verið rænt af leyniþjónustunni. Hann segist hafa þurft að sæta pyntingum er hann var í haldi ISI. Í frétt á vef BBC segir að ekki sé ljóst hvernig læknirinn gaf viðtalið því hann er nú í fangelsi í Peshawar.

Hann er í heimalandinu sakaður um að hafa tekið DNA-sýni af fjölskyldu Bins Ladens undir fölskum forsendum. Í maí á síðasta ári var hann dæmdur í 33 ára fangelsi fyrir að fjármagna og styðja skæruliðasamtök en fréttaritarar á svæðinu telja að Pakistanar og stuðningsmenn Bins Ladens, séu að refsa honum fyrir að hafa hjálpað bandarísku leyniþjónustunni, CIA, að hafa hendur í hári Al-Qaeda-leiðtogans.

Viðtalið var birt á Fox-sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert