Hætt að berjast fyrir norskri ESB-aðild

Norden.org

Mótstaðan í Noregi við inngöngu í Evrópusambandið er svo mikil að norsku Evrópusamtökin telja að umræðan um málið þar í landi sé dauð. Þetta kemur fram á fréttavef norska dagblaðsins Verdens Gang.

Fram kemur í fréttinni að samtökin leggja ekki lengur áherslu á að berjast fyrir því að Noregur gangi í Evrópusambandið og eru nú opin fyrir því að taka við meðlimum sem eru andvígir inngöngu í sambandið.

„Við gerum okkur grein fyrir því að umræðan um norska aðild [að Evrópusambandinu] er dauð eins og staðan er nú og við stöndum frammi fyrir stjórnmálaumhverfi sem gerir það nauðsynlegt að hugsa málið upp á nýtt,“ er haft eftir framkvæmdastjóra norsku Evrópusamtakanna Kirsti Methi.

Með þeim ummælum sínum að hugsa þurfi málið upp á nýtt vísar hún til þess að skoða þurfi aðrar leiðir fyrir Noreg til þess að taka þátt í evrópsku samstarfi að því er segir í fréttinni.

„Við förum frá því að vera baráttusamtök sem höfum barist fyrir norskri aðild að Evrópusambandinu yfir í það að verða Evrópusamtök sem beita sér fyrir breiðari nálgun á evrópskri samvinnu og þar með talið varðandi tengslin við sambandið,“ segir hún ennfremur.

Mehti leggur þó áherslu á að Evrópusamtökin telji engu að síður að innganga í Evrópusambandið þjónaði hagsmunum Noregs best.

„En þar sem það er ekki mögulegt að ræða þetta í dag þá er mikilvægara að beita sér fyrir upplýsingamiðlun og samvinnu á öðrum sviðum. Við ætlum að opna starfsemi okkar fyrir öllum þeim sem hafa áhuga á Evrópu, efasemdafólk um Evrópusambandið getur einnig orðið félagsmenn,“ segir hún að lokum.

Frétt Verdens Gang

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert