Vangaveltur um heilsufar Pútíns

Vladimir Pútín, forseti Rússlands.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands. AFP

Rússnesk stjórnvöld blása á allar vangaveltur um að Vladimir Pútín, forseti landsins, sé heilsuveill. Getgátur hafa verið uppi um að Pútín, sem hefur lagt mikla áherslu á líkamlegt atgervi sitt og karlmennsku, sé ekki við góða heilsu og það gaf sögusögnum byr undir báða vængi er hann aflýsti viðræðum við Yoshihiko Noda, forsætisráðherra Japans, sem áttu að fara fram í Moskvu í dag.

Talsmaður forsetans segir að heimsókn japanska forsætisráðherrans hafi ekki verið ákveðin endanlega og segist vonast til þess að viðræðurnar geti átt sér stað í janúar.

AFP-fréttastofan hefur aftur á móti eftir japönskum embættismanni að rússnesk yfirvöld hafi aflýst viðræðunum vegna ótilgreindra veikinda Pútíns. Þá hafa japanskir fjölmiðlar haft eftir Noda að Pútín sé ekki heilsuhraustur.

Rússnesk yfirvöld hafa ítrekað neitað orðrómi um að Pútín eigi við bakmeiðsli að stríða. 

„Hann vinnur jafnmikið og hann hefur alltaf gert og hyggst gera það áfram. Hann mun ekki hætta að stunda íþróttir, en eins og allir íþróttamenn finnur hann stundum fyrir verkjum. En það hefur aldrei haft áhrif á starfsgetu hans,“ segir talsmaður Pútíns.

Vangaveltur eru um heilsufar Pútíns.
Vangaveltur eru um heilsufar Pútíns. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert