Vilja ekki evruna í stað norsku krónunnar

Norden.org

Stjórnendur norskra fyrirtækja eru klofnir í afstöðu sinni til þess hvort hagsmunum Noregs sé best borgið innan Evrópusambandsins eða utan þess en fram kemur á fréttavef norska dagblaðsins Dagsavisen að þeir hafi til þessa verið helstu hvatamenn þess að Norðmenn gengu í sambandið. Vaxandi efasemda gæti nú um ágæti inngöngu í röðum þeirra.

Vísað er í fréttinni til nýrrar úttektar KPMG í Noregi sem byggð sé á ítarlegum viðtölum við 30 háttsetta stjórnendur helstu fyrirtækja landsins. Helmingur þeirra er nú hlynntur inngöngu í Evrópusambandið en helmingurinn andvígur því.

Haft er eftir Arne Frogner sem stýrði úttekt KMPG að stjórnendur norskra fyrirtækja telja mikilvægt að Noregur eigi í góðu samstarfi við Evrópusambandið en efnahagserfiðleikarnir innan þess geri það að verkum að þeim fjölgi í þeirra röðum sem telji farsælast að Norðmenn standi áfram utan sambandsins.

Einnig kemur fram í úttektinni að afgerandi meirihluti fyrirtækjastjórnendanna vilji ekki skipta norsku krónunni út fyrir evru og sé jákvæður fyrir aðild Noregs að Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Helstu rök þeirra fyrir því að vilja ekki evruna eru þau að mikilvægt sé fyrir Norðmenn að stjórna áfram eigin peninga- og fjármálum.

Frétt Dagsavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert