Armstrong: „Á ekki dauðarefsingu skilið“

Lance Armstrong, sem hefur viðurkennt að hafa notað bönnuð lyf til að bæta frammistöðu sína í hjólreiðakeppnum, setur spurningarmerki við það að hann skuli vera útilokaður frá þátttöku í öllum íþróttum vegna gjörða sinna. Hann líkir þessu við dauðarefsingu.

Armstrong bar saman sitt lífstíðarbann við hálfs árs refsingar sem aðrir hafi fengið, að því er segir í frétt á vef breska ríkisútvarpsins.

Þetta kom fram í síðari hluta viðtals sem Oprah Winfrey tók við Armstrong og var sýnt í sjónvarpi í gær. „Ég á skilið að hljóta refsingu. Ég er hins vegar ekki viss um að ég eigi dauðarefsingu skilið,“ sagði hann.

„Mér þætti frábært að fá tækifæri til að keppa, en það er ekki ástæðan fyrir því að ég er að gera þetta,“ sagði hann ennfremur.

Í fyrri hluta viðtalsins, sem var sýndur á fimmtudag, viðurkenndi Armstrong sök, þ.e. að hafa notað bönnuð lyf til að bæta frammistöðu sína í öllum keppnum Frakklandshjólreiðanna (Tour de France) á árunum 1999-2005 þegar hann sigraði sjö ár í röð.

Þótt Armstrong hafi aðeins játað það sem lengi hefur verið vitað er talið að hneykslismálið hafi skaðað hjólreiðaíþróttina svo mikið að það taki a.m.k. áratug að bæta skaðann til fulls, að mati fréttaskýranda breska ríkisútvarpsins.

„Ég lít á þetta sem eina stóra lygi sem ég endurtók mörgum sinnum,“ sagði Armstrong í viðtali sem sjónvarpsstöð Winfrey sýndi í fyrrinótt. „Ég tók þessar ákvarðanir, þær voru mistök og ég er hér til að segja að mér þykir þetta miður.“

Áður hafði Armstrong alltaf haldið því fram að hann hefði aldrei notað bönnuð lyf. Að sögn New York Times lét Armstrong hjá líða að gera það sem margir hefðu beðið eftir: að horfa í myndavélina og biðja alla þá, sem höfðu trú á honum, afsökunar og alla þá sem hann hafði kallað lygara.

Armstrong sýndi litla iðrun þegar hann var spurður um fólkið sem hann reyndi að brjóta á bak aftur til að halda lyfjanotkuninni leyndri, t.a.m. fyrrverandi nuddara sinn, Emmu O'Reilly, fyrrv. keppnisfélaga sinn, Frankie Andreu, og eiginkonu hans. Þau höfðu sakað hann um að hafa notað bönnuð lyf en hann svarað með því að kalla þau lygara. O'Reilly lýsti hann einnig sem vændiskonu og áfengissjúklingi.

„Ein allsherjar skröksaga“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert