Höfðu varað við hættu í Alsír

Skjámynd frá alsírsku sjónvarpsstöðinni Ennahar sem sýnir gíslana gefast upp …
Skjámynd frá alsírsku sjónvarpsstöðinni Ennahar sem sýnir gíslana gefast upp fyrir vígamönnunum. AFP

Í skýrslu norska sendiráðsins í Alsír frá árinu 2011 er varað við þeirri hættu sem stafað gæti af hryðjuverkum. Gasvinnslustöðin í In Amenas, sú sem íslamskir vígamenn réðust á í síðustu viku, tóku fjölda gísla og myrtu tugi, var sérstaklega nefnd í þessu sambandi. Fimm Norðmanna, starfsmanna Statoil sem teknir voru sem gíslar, er enn saknað.

Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að hættan af vopnuðum vígamönnum sé umtalsverð. Útlendingar séu í einna mestri hættu, því þeir séu sérlegt skotmark liðsmanna al-Qaida samtakanna. Skýrslan var send til norska utanríkisráðuneytisins. 

Espen Barth Eide, utanríkismálaráðherra Noregs, hefur ekki svarað því til hvers vegna ekki voru gerðar viðeigandi ráðstafanir í samræmi við efni skýrslunnar. Talsmaður Statoil hefur heldur ekki verið til viðtals um hvort stjórnendum fyrirtækisins hafi verið kunnugt um efni hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert