Ódýr matur seldur í skóla og sjúkrahús

Malcolm Walker, stofnandi og aðaleigandi bresku verslanakeðjunnar Iceland.
Malcolm Walker, stofnandi og aðaleigandi bresku verslanakeðjunnar Iceland. mbl.is/Eyþór Árnason

Malcolm Walker, forstjóri Iceland-matvörukeðjunnar, segir að sveitarstjórnir í Bretlandi beri ábyrgð á því að gæðum matar í landinu hafi hrakað, því þær hafi gert samninga við kjötvinnslur um kaup á mat fyrir skóla og sjúkrahús þar sem verðið sé lækkað niður úr öllu valdi.

Walker sagði þetta í viðtali á BBC í morgun. Hann hafnar því að stórmarkaðir selji lélega vöru og segir ekki rétt að kenna verslunum um að vörur með hrossakjöti, sem merktar voru sem nautakjöt, hafi verið til sölu í búðunum.

Hrossakjöt hefur fundist í unnum kjötvörum í stórmörkuðum eins og Iceland, Tesco, Asda, Lidl og Aldi. Um er að ræða vörur sem merktar voru sem nautakjöt. Verslanirnar hafa tekið þessar vörur úr sölu eftir að málið kom upp.

Walker sagði í viðtalinu að stórmarkaðir í Bretlandi hefðu getið sér gott orð fyrir matvælaöryggi. Fylgst væri vel með gæðum þeirrar matvöru sem seld væri í verslunum.

„Ef menn eru að leita að sökudólgi ætti að byrja á að skoða sveitarstjórnirnar því að þær skipta við ósýnileg fyrirtæki sem selja matvörur í skóla og sjúkrahús. Þarna fara fram umfangsmikil viðskipti með ódýra matvöru og samningarnir snúast aðeins um eitt; verð,“ sagði Walker.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert