Assad reiðubúinn til viðræðna

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, segist reiðubúinn til viðræðna við stjórnarandstöðuna …
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, segist reiðubúinn til viðræðna við stjórnarandstöðuna í landinu. AFP

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, segist reiðubúinn til viðræðna við stjórnarandstæðinga í landinu, en ekki komi til greina að hann fari frá völdum. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segist vilja leiða viðræður á milli stríðandi fylkinga

Þetta sagði Assad í viðtali við The Sunday Times, sem birtist í blaðinu í dag. 

Þar býðst hann til þess að ræða við stjórnarandstöðuna en segist gera greinarmun á „pólitískum fulltrúum“ og „vopnuðum hryðjuverkamönnum“. „Við erum tilbúin til viðræðna við hvern sem er, þar á meðal hermenn sem leggja frá sér vopn sín,“ segir Assad í viðtalinu.

„Við getum rætt við stjórnarandstöðuna, en við ræðum ekki við vopnaða hryðjuverkamenn.“

Sækist eftir endurkjöri

Í gær tilkynnti utanríkisráðherra Írans, Ali Akbar Salehi, að Assad myndi sækjast eftir endurkjöri í forsetakosningunum í Sýrlandi sem munu fara fram á næsta ári og að það væri á valdi almennings í landinu að kjósa sér leiðtoga.

Átökin í Sýrlandi hafa nú staðið yfir í tæp tvö ár og hafa kostað um 70.000 manns lífið. Þá hafa tugþúsundir flúið land, flestir til nágrannalandanna. Að auki eru tugþúsundir á vergangi innanlands eftir að hafa þurft að flýja heimili sín.

Assad neitar því í viðtalinu að átökin tengist veru hans á forsetastóli á nokkurn hátt.  „Ef svo væri, þá myndu átökum væntanlega linna ef ég færi frá völdum. Það er fáránlegt að halda því fram, nýlegir atburðir í Líbíu, Jemen og Egyptalandi staðfesta það.“

Segir Breta auka á vandann

Bresk stjórnvöld hafa farið fram á við Evrópusambandið að banni við vopnaaðstoð við uppreisnarmenn í Sýrlandi verði aflétt. Assad sakar bresku ríkisstjórnina um að vilja láta „sýrlenska hryðjuverkamenn“ fá vopn og segir Breta hafa stundað niðurrifsstarfsemi um áratugi, jafnvel aldir og talaði í því sambandi um „eineltislega einræðistilburði“.

Spurður um hvort bresk stjórnvöld gætu á einhvern hátt komið að lausn mála í Sýrlandi svaraði Assad: „Við getum ekki búist við því að brennuvargur slökkvi elda“ og sagði Breta auka á vandann með íhlutun sinni.

Áfram var tekist á í Sýrlandi í gær og í nótt. Að minnsta kosti 133 létust í átökum í landinu í gær, að sögn mannréttindasamtakanna Syrian Observatory for Human Rights. Í morgun létust 34 stjórnarhermenn þegar stjórnarandstæðingar gerðu áhlaup á lögregluskóla í borginni Aleppo.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert