Þessi lönd hafa brugðist við hælisumsókn Snowdens

Edward Snowden.
Edward Snowden. AFP

Íslenska utanríkisráðuneytið staðfestir að sendiráði Íslands í Moskvu hafi borist hælisumsókn frá Edward Snowden í gær. Snowden hefur sótt um hæli í 21 landi. Íslenska utanríkisráðuneytið ítrekar að Snowden þurfi að vera á Íslandi svo hægt sé að taka umsókn hans um hæli fyrir.

Snowden hefur sótt um hæli í eftirfarandi löndum: Íslandi, Ekvador, Austurríki, Bólivíu, Brasilíu, Kína, Kúbu, Finnlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Indlandi, Ítalíu, Írlandu, Hollandu, Níkaragva, Noregi, Póllandi, Rússlandi, Spáni, Sviss og Venesúela.

Snowden hefur hins vegar dregið umsókn sína um hæli í Rússlandi til baka eftir að Rússar settu það skilyrði að hann yrði að hætta að leka upplýsingum um eftirlit Bandaríkjanna.

Hér eru viðbrögð landanna við hælisumsókninni:

Indland: Talsmaður utanríkisráðuneytisins segir að farið hafi verið vel yfir umsóknina en að ekki sé talin ástæða til að samþykkja hana.

Pólland: Umsóknin uppfyllir ekki skilyrði um hælisumsókn. Og jafnvel þótt svo væri fengi hann ekki jákvæð viðbrögð, skrifaði utanríkisráðherrann á Twitter.

Holland: Hælisleitandi þarf að vera í landinu svo umsóknin sé tekin fyrir. Þar sem svo er ekki verður ekki fjallað efnislega um umsókn Snowdens.

Lönd sem eru að skoða hælisumsóknina:

Bólivía: Forsetinn segir að sé Snowden að sækja um hæli sé hann viljugur að ræða þá hugmynd.

Þýskaland: Utanríkisráðherrann segir að fjallað verði um umsókn Snowdens samkvæmt lögum en sagðist þó ekki getað ímyndað sér að hún yrði samþykkt.

Ítalía: Umsóknin barst á faxi en verður tekin til umfjöllunar, jafnvel þótt að slíkt sé yfirleitt ekki gert nema umsóknin berist sendiráði Ítalíu eða sé lögð fram í landinu sjálfu. Ríkisstjórnin mun fjalla um málið.

Austurríki, Finnland, Ísland, Noregur og Spánn segja að Snowden verði að vera í landinu til að umsókn hans um hæli verði tekin til efnislegrar meðferðar.

Frakkar og Svisslendingar segjast enn enga formlega umsókn hafa fengið frá Snowden.

Kína og Írland hafa þegar hafnað umsókn hans um hæli.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert