Halliburton játar að hafa eytt gögnum

AFP

Bandaríska fyrirtækið Halliburton mun fyrir rétti játa að hafa eyðilagt gögn tengdum olíulekanum í Mexíkóflóa árið 2010. Samkomulag hefur verið gert um játninguna en hún þýðir að Halliburton þarf að greiða hæstu mögulegu sekt. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Bandarísk rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu árið 2011 að sprengingu, sem olli olíulekanum í Mexíkóflóa 2010, megi rekja til ýmissa mistaka og ákvarðana sem voru líklega teknar til að spara peninga og tíma. Nefndin komst einnig að þeirri niðurstöðu að þrjú fyrirtæki, BP, Halliburton og Transocean, bæru öll ábyrgð á þessum mistökum.

Halliburton veitti BP ýmsa þjónustu við rekstur olíuborpallsins sem sprakk og olíufyrirtækið leigði borpallinn af Transocean. Ellefu manns biðu bana í sprengingunni í olíuborpallinum Deepwater Horizon í Mexíkóflóa. Sprengingin varð til þess að 4,9 milljónir tunna af olíu láku í hafið á þremur mánuðum og er það eitt mesta olíumengunarslys sögunnar.

BP sakaði Halliburton um að hafa eytt gögnum tengdum slysinu og gerði kröfu um að Halliburton yrði gert skaðabótaskylt fyrir öllum skemmdunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert