Handtóku sambýlismann blaðamanns

Glenn Greenwald, blaðamaður Guardian.
Glenn Greenwald, blaðamaður Guardian. LIA DE PAULA

Stjórnvöld í Brasilíu hafa lýst óánægju með að sambýlismaður Glenn Greenwald, blaðamanns á breska blaðinu Guardian, hafi verið handtekinn á Heathrow-flugvelli og yfirheyrður í 9 klukkutíma. Greenwald hefur skrifað mikið um mál uppljóstrarans Edward Snowden.

Stjórnvöld í Brasilíu segja að ekki sé hægt að réttlæta handtöku David Miranda, sambýlismanns Greenwald og að þau líti á þetta mál mjög alvarlegum augum.

Greenwald hefur sagt frá því að hann hafi fyrir nokkru fengið 15- 20.000 skjöl frá Snowden. Breska lögreglan staðfestir að 28 ára gamall maður hafi verið stöðvaður á Heathrow með tilvísan til ákvæðis í lögum um varnir gegn hryðjuverkum. Honum hafi verið sleppt eftir 9 klukkustundir að loknum yfirheyrslum.

Miranda sagði í samtali við BBC að lögreglan hefði ekkert spurt hann um hryðjuverk heldur einungis um hvað Greenwald og aðrir blaðamenn Guardian væru að fást við. Lögreglan lagði hald á farsíma og fartölvu Miranda.

Greenwald segir að handtaka sambýlismanns síns feli í sér árás á frelsi fjölmiðla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert