„Mjög skrítin stemning hérna“

Frá Naíróbí í dag.
Frá Naíróbí í dag. AFP

„Það er náttúrulega bara allir að tala um þetta hérna. Það er mjög skrítin stemning hérna. Um leið og það koma fréttir leggja allir við hlustir til að kanna hvort það sé eitthvað nýtt,“ segir Borgar Þorsteinsson en hann starfar í Kenía nokkru fyrir norðan höfuðborgina Naíróbí.

Hópur hryðjuverkamanna réðist inn í verslanamiðstöð í borginni síðastliðinn laugardag og myrtu þar tugi manna. Hermenn hafa nú náð völdum yfir verslanamiðstöðinni og umkringt þá hryðjuverkamenn sem enn eru á lífi en þrír þeirra voru skotnir til bana fyrr í dag. Borgar segir að atburðurinn veki upp óþægilegar minningar hjá mörgum um sprengjuárásina á sendiráð Bandaríkjanna í borginni árið 1998. En annars séu slíkir atburðir af þessari stærðargráðu ekki algengir þar í landi en hann hefur sjálfur verið viðloðandi Kenía undanfarna tvo áratugi vegna vinnu.

„Það situr svolítið í fólki hérna, árásin á sendiráðið. En þetta er af allt öðrum toga,“ segir Borgar. Þarna hafi árás verið gerð á verslanamiðstöð og í fljótu bragði erfitt að átta sig á því hvert tilefni hennar hafi verið nema þá bara að valda skaða og skelfingu.

Nýjustu fréttir herma að herinn hafi náð tökum á ástandinu. Áður en herinn hóf lokatilraun til að binda endi á umsátrið í verslunarmiðstöðinni höfðu stjórnvöld tilkynnt að 62 væru fallnir og 175 særðir, sumir alvarlega. Þessar tölur gætu hafa breyst í dag.

„Maður óttast að þetta endi í frekara blóðbaði þó maður voni auðvitað að það gerist ekki. Þessir menn eru ekkert að hugsa um það að semja um neitt. Það er ekki verið að semja við þá. Það virðist bara vera ætlunin að valda skelfingu og skaða. Þetta er auðvitað bara ömurlegt fyrir Kenía að lenda í þessu. Þetta er fallegt land og hefur verið mikið ferðamannaland og þetta auðvitað stórskaðar það,“ segir Borgar.

Borgar Þorsteinsson
Borgar Þorsteinsson mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert