Vandamálið heitir Bretland

AFP

Meiri samruni þarf að eiga sér stað innan Evrópusambandsins og þar á meðal þarf einn fjármálaráðherra fyrir allt sambandið ef sambandið á að geta verið samkeppnishæft á komandi árum. Þetta sagði Gerhard Schröder, fyrrverandi kanslari Þýskalands, í dag á efnahagsráðstefnu í Bregenz í Austurríki samkvæmt frétt AFP.

Kanslarinn fyrrverandi varaði hins vegar við því að Bretar myndu gera sitt besta til að stöðva allar tilraunir til þess að stuðla að auknum samruna innan Evrópusambandsins sem fælu í sér frekara framsal valds til stofnana sambandsins. „Pólitísk uppbygging Evrópusambandsins má ekki standa í stað. Við verðum að stefna að pólitískri sameiningu sambandsins, að nokkurs konar evrópsku sambandsríki.“

Meðal þess sem Schröder sagði að þyrfti að gera væri að skipa einn fjármálaráðherra fyrir Evrópusambandið sem hefði völd til þess að aga ríki sem færu ekki eftir reglum sambandsins. Hann sagði hins vegar að ákveðið vandamál væri fyrir hendi í þeim efnum og það vandamál héti Bretland. „Á meðan Bretar stöðva slík áform mun ekkert gerast.“ Sagði hann að þau ríki sem ekki vildu meiri samruna ættu ekki að geta stöðvað þau sem það vildu.

Þá kallaði Schröder eftir því að Tyrkland fengi inngöngu í Evrópusambandið og að komið yrði á nánara sambandi við Rússland. Slíkt væri nauðsynlegt ef Evrópusambandið ætti að geta verið samkeppnishæft við Bandaríkin og Kína. „Evrópusambandið þarfnast rússneskra auðlinda og hagkerfi okkar þurfa á markaði þess að halda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert