Nigella: Notaði ekki fíkniefni

Breski sjónvarpskokkurinn Nigella Lawson neitar ásökunum um að hafa neytt fíkniefna. Tvær aðstoðarkonur hennar, sem hún hefur nú kært fyrir fjárdrátt, segja hana hafa notað fíkniefni daglega, m.a. kókaín. Því hefur m.a. verið haldið fram að Nigella hafi heimilað konunum að nota kreditkort sín svo þær myndu ekki segja þáverandi eiginmanni hennar frá fíkninni. 

Nigella og fyrrverandi eiginmaður hennar, Charles Saatchi hafa kært tvær aðstoðarkonur sínar fyrir að stela af þeim miklum fjármunum með því að nota kreditkort þeirra í leyfisleysi.

Eru konurnar sakaðar um að hafa eytt peningum hjónanna fyrrverandi í rándýr flugfargjöld og ýmsan lúxusvarning s.s. handtöskur frá Louis Vuitton, Christian Dior og Vivienne Westwood. Nigella og Saatchi segja að aðstoðarkonurnar, sem eru systur, hafi stolið af þeim 135 milljónum króna. Konurnar neita báðar sök.

Nigella ber nú vitni í málinu í dómshúsinu í London. Samkvæmt frétt BBC sagði hún að eiginmaður hennar fyrrverandi væri að nota málið til að eyðileggja mannorð hennar með því að dreifa ósönnum ásökunum um fíkniefnanotkun.

Þá sagði hún að Saatchi hafi hótað sér og sagt að hann myndi „eyðileggja hana“ ef hún kæmi ekki til hans aftur og hreinsaði þannig nafn hans.

Nigella og Saatchi eru skilin. Gerðist það í kjölfar þess að myndir birtust af honum að taka hana hálstaki á veitingastað.

Frétt BBC

Frétt Sky 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert