Forsetafrú í tveimur löndum

Graca Machel.
Graca Machel. AFP

Graca Machel, ekkja Nelson Mandela, er eina konan sem hefur verið forsetafrú í tveimur löndum. Hún var áður gift forseta Mósambik, Samora Machel en hann lét lífið í dularfullu flugslysi ári 1986.

Mandela og Machel giftu sig árið 1998. Þá var hún 52 ára en hann var 80 ára. Hún sagði í viðtal við CNN fyrir nokkru síðan að aldurinn hafi gert það að verkum að samband þeirra var jafn gott og það var.

„Við vorum vaxin úr grasi og búin að koma okkur fyrir í lífinu og áttuðum okkur á virði þess að eiga lífsförunaut og félaga,“ sagði hún. Machel segist hafa vanist því að vera gift frelsishetjunni sem er þekkt og dáð víða um heim, en það hafi þó tekið nokkurn tíma.

Íbúar Suður-Afríku tóku henni ekki fagnandi í byrjun og var hún því ekki áberandi fyrstu árin. Smá saman vann hún þó traust þjóðarinnar. Ást Mandela og Machel var þó ekki ást við fyrstu sýn. Til að byrja með hafði hún ekki áhuga á að giftast honum en Mandela hélt þó áfram að reyna og sendi henni til að mynda reglulega súkkulaði.

Machel var mennta- og menningarmálaráðherra í Mósambik í rúm tíu ár. Hún hefur mikinn áhuga á menntun barna og unglinga og hefur meðal annars starfað sem sérfræðingur í málefnum barna hjá Sameinuðu þjóðunum.

Machel er þriðja eiginkona Mandela. Hann var fyrst giftur Evelyn Mase en þau skildu. Í ævisögu sinni, „Löng leið til til frelsis“ sagði hann að fyrrverandi eiginkona hans hefði látið hann velja á milli stjórnmála og fjölskyldunnar. Síðar gekk hann að eiga Winnie Mandela. Þau skildu árið 1996 og giftust Nelson Mandela og Graca tveimur árum síðar.

Nelson Mandela og eiginkona hans Graca Machel.
Nelson Mandela og eiginkona hans Graca Machel. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert