Fá Pulitzer fyrir að fjalla um gögn Snowdens

Glenn Greenwald, blaðamaður Guardian, og Edward Snowden. Greenwald skrifaði fyrstu …
Glenn Greenwald, blaðamaður Guardian, og Edward Snowden. Greenwald skrifaði fyrstu fréttirnar sem birtar voru upp úr gögnum Snowden.

Dagblöðin Guardian og Washington Post deila með sér Pulitzer verðlaununum í ár í flokki frétta í almannaþágu, vegna afhjúpana þeirra um njósnir bandarískra stjórnvalda. Afhjúpanirnar byggðu á gögnum uppljóstrarans Edward Snowden.

Það er Columbia háskólinn sem veitir Pulitzer verðlaunin fyrir afburða fréttamennsku í Bandaríkjunum. Verðlaunin eru veitt í mörgum flokkum, þar á meðal fyrir fréttamennsku í almannaþágu.

Washington Post og breska blaðið Guardian, sem einnig er með starfsstöðvar í Bandaríkjunum, birtu fyrstu fréttirnar um víðtækar persónunjósnir Bandarísku öryggisstofnunina NSA, byggðar á gögnum sem Edward Snowden lak til þeirra.

Í umsögn dómnefndar segir að Washington Post hafi sýnt innsæi í fréttum sínum sem hjálpaði almenningi að komast í skilning um það hvaða þýðingu afhjúpanirnar hefðu í stærra samhengi við þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

Guardian er verðlaunað fyrir afhjúpanir á umfangsmiklum njósnum NSA og harðan fréttaflutning sem dómnefndin segir að hafi hrint af stað umræðu milli almennings og stjórnvalda um öryggi og einkalíf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert