Líf sjerpa metið á 45 þúsund kr.

Hópur Nepala minnist sjerpanna sextán sem fórust á Everest þann …
Hópur Nepala minnist sjerpanna sextán sem fórust á Everest þann 18. apríl. AFP

Draumar margra urðu að engu er mannskæðasta snjóflóð í sögu Everest féll 18. apríl. Sorgin er mikil meðal sjerpanna sem misstu sextán úr sínum hópi. Án sjerpanna er Everest ekki klifið. Margir fjallgöngumenn sem höfðu undirbúið sig fyrir gönguna á hæsta tind heims mánuðum og jafnvel árum saman, hafa pakkað saman og farið. Enginn þeirra fer á tind Everest þetta árið. Meðal þeirra sem hafa orðið frá að hverfa eru tveir Íslendingar, Vilborg Arna Gissurardóttir og Ingólfur Axelsson.

Margir fjallgöngumannanna efast um að þeir muni snúa aftur til að freista þess að ná takmarkinu.

Fjallgöngumennirnir eru sumir hverjir reiðir. Þeir segja að nepölsk stjórnvöld hafi ekki staðið sig í viðræðum við sjerpana sem kröfðust í kjölfar slyssins bættra kjara, m.a. hærri líftrygginga.

Sjerparnir stóðu fast á sínu. Sumir þeirra voru tilbúnir að halda áfram en sameiginlega ákvað hópurinn þó að ganga ekki á fjallið þetta árið. Því urðu þeir fjallgöngumenn sem voru komnir í grunnbúðir og biðu þess að hefja gönguna upp að snúa heim. 

Bandaríski fjallgöngumaðurinn Robert Kay ætlaði að reyna að komast á tindinn í þriðja sinn. Hann hefur tvisvar áður þurft frá að hverfa vegna veðurs, árin 2010 og 2013.

Kay er 52 ára. Hann réð tvo einkaþjálfara til vinnu og eyddi miklum peningum í undirbúninginn. Hann tók sér tíu vikna frí frá vinnu í þeirri von að geta nú loks komist á hæsta tind heims, Everest, sem er 8.848 metra hár.

„Ég hugsa um þetta fjall tíu sinnum á hverjum einasta degi,“ sagði Kay við AFP-fréttastofuna er hann var enn í Katmandú, höfuðborg Nepals. Hann var þar í hópi fjölda fjallgöngumanna sem voru á heimleið.

Kay er þriggja barna faðir. Hann hefur ættleitt tvær stúlkur frá Nepal. Hann lýsir deginum er snjóflóðið féll eins og „tilfinningalegum rússíbana“.

„Eina stundina var sagt að ekkert yrði gengið á fjalli. Þá næstu að ríkisstjórnin væri að ná samkomulagi við sjerpana og að það yrði gengið. Svo næsta dag var enn og aftur hætt við. Þetta var þreytandi,“ útskýrir Kay.

Alex Staniforh er breskur táningur. Hann var greindur með flogaveiki er hann var níu ára. Hann ætlaði að klífa Everest en nú er allt breytt.

„Þetta er eitthvað sem ég átti alls ekki von á. Ég veit það ekki, veit ekki hvort ég kem aftur, hvort mér tekst að komast yfir þessar slæmu minningar, ná mér á strik og reyna aftur,“ skrifar Staniforh á bloggsíðu sína. Hann segir að svo gríðarlega þjálfun þurfi til að komast á Everest. Því er alls óvíst að hann reyni aftur að ári.

Hefur skemmt ímynd Nepals

 Vanir fjallgöngumenn sem komu niður úr grunnbúðum Everest segja að andrúmsloftið í búðunum hafi verið þrúgandi. En hið mannskæða snjóflóð hefur minnt fólk á hversu hættulegt er fyrir sjerpana að ganga á fjallið. Það eru þeir sem flytja mestan búnað fjallgöngumannanna, oft eldsnemma á morgnana í niðamyrkri, milli áfangastaða á fjallinu. 

Líftryggingar þeirra eru mjög lágar. Ríkisstjórnin bauð hverri fjölskyldu þeirra sem létust á fjallinu í apríl í fyrstu um um 400 dollara, um 45 þúsund krónur. Þetta eru sjerparnir skiljanlega gríðarlega ósáttir við og krefjast þess að fá tryggingarnar hækkaðar, bæði líf- og slysatryggingar. 

 Samningaviðræður milli ríkisstjórnarinnar og sjerpanna standa enn yfir. 

Kay segir að sjerparnir sem fylgja áttu hans leiðangri á fjallið hafi viljað halda ferðinni áfram en vildu ekki gera svo vegna ótta við hótanir annarra sjerpa. 

„Yngri sjerparnir sögðu við þá að ef þeir héldu áfram þá vissu þeir hvar þeir byggju,“ segir Kay.

Aðrir fjallgöngumenn segja að viðbrögð fyrirtækjanna sem skipuleggja leiðangrana á Everest hafi aukið á vandann. 

„Við héldum minningarathöfn um þá sjerpa sem létust. Þar fannst mér vestrænu fjallgöngumennirnir vera mjög ágengir og reyndu að fá fólk til að klifra og fara aftur að vinna,“ segir Gavin Turner, ástralskur fjallgöngumaður.

„Þeir höguðu sér eins og við værum að reyna að vinna fótboltaleik. Þetta undirstrikaði bara betur gjána sem er á milli Vesturlandabúanna og sjerpanna, andrúmsloftið breyttist við þetta.“

Prachanda Man Shrestha, fyrrverandi framkvæmdastjóri ferðamannaráðsins í Nepal, segir að lokun fjallsins muni hafa miklar fjárhagslegar afleiðingar og til lengri tíma á ferðamennskuna í Nepal. 

Á hverju ári nema tekjur vegna leyfa sem fjallgöngumenn á leið á Everest greiða, um 3 milljónum dollara eða um 350 milljónum króna. Árið 2012 komu 800 þúsund ferðamenn til Nepals. 

„Hagkerfi Everest er ekki eitt og sér stór hluti af heildarmyndinni, en þetta mun hafa áhrif á alla ferðamennsku í Nepal. Þetta hefur skaðað ímynd Nepals, bæði í augum fjallgöngufólks og annarra.“

Stjórnvöld í Nepal hafa lofað fjallgöngumönnunum sem þurftu frá að hverfa þetta árið að þeir þurfi ekki að kaupa ný leyfi, sem kosta að minnsta kosti 11 þúsund dollara, um 1,3 milljónir króna. Leyfin verða framlengd til fimm ára. Sumir fjallgöngumenn ætla hins vegar að freista þess að klífa Everest frá Kína, en sú leið er mun sjaldnar farin. 

„Mig langar að klífa fjallið á næsta ári en þá Kínamegin frá. Ég hef misst trú á nepölskum stjórnvöldum,“ segir Ástralinn Turner. 

Frá því að Ed­mund Hillary og Tenz­ing Norgay klifu fyrst­ir tind­inn árið 1953 hafa yfir 300 manns, aðallega leiðsögu­menn, týnt lífi á fjall­inu.

Þessi mynd sýnir snjóflóðið sem féll þann 18. apríl.
Þessi mynd sýnir snjóflóðið sem féll þann 18. apríl. AFP
Sjerparnir krefjast bættra kjara og hærri líf- og slysatrygginga.
Sjerparnir krefjast bættra kjara og hærri líf- og slysatrygginga. AFP
Þyrla skammt frá grunnbúðum Everest í björgunarleiðangri vegna snjóflóðsins.
Þyrla skammt frá grunnbúðum Everest í björgunarleiðangri vegna snjóflóðsins. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert