Innrásin „misheppnaðist algjörlega“

Kúrdískir Írakar við borgina Kirkuk.
Kúrdískir Írakar við borgina Kirkuk. AFP

Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, segir að hertaka íslamista á borgum í Írak sýni svo ekki verður um villst að innrás Bandaríkjamanna í landið „misheppnaðist algjörlega“.

„Atburðirnir í Írak sýna að herferð Bandaríkjamanna og Breta í Írak var algjörlega misheppnuð,“ hefur rússnesk fréttaveita eftir Lavrov í dag. Vísar hann þar til innrásarinnar í Írak árið 2003 sem varð til þess að einræðisherranum Saddam Hussein var steypt af stóli. „Eining Íraks er í hættu.“

Hann segir Rússa mjög áhyggjufulla yfir ástandinu í Írak. „Við vöruðum við því fyrir löngu að ævintýri Breta og Bandaríkjamanna myndi ekki enda vel.“

Lavrov segir að Rússar standi með íröskum stjórnvöldum. Hann segir að afskipti vesturveldanna í landinu veki margar spurningar. 

Á mánudag hófu herskáir íslamistar áhlaup í nokkrum héruðum Íraks. Í dag hafa þeir nálgast Bagdad.

Bandarísk stjórnvöld segjast „tilbúin“ til að hjálpa Írökum en Bretar hafa hins vegar lýst því yfir að þeir muni ekki senda hermenn aftur til landsins. 

Breski utanríkisráðherrann, William Hague, sagði í gær að óöldin í Írak væri til marks um áhrif stríðsins í Sýrlandi.

Lavrov blæs á þær skýringar. „Við vitum að breskir kollegar okkar búa yfir einstakri hæfni til að afskræma allt en jafnvel ég átti ekki von á slíkri tortryggni frá þeim,“ sagði Lavrov.

Frá Írak.
Frá Írak. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka