Prinsessan sem sigraðist á átröskun

Viktoría krónprinsessa mætti prúðbúin til kvöldverðar á Bessastöðum í gærkvöldi.
Viktoría krónprinsessa mætti prúðbúin til kvöldverðar á Bessastöðum í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viktoría, krónprinsessa Svíþjóðar, heldur í dag áfram för sinni um landið. Hún er í opinberri heimsókn í boði forseta Íslands ásamt Daníel prins, eiginmanni sínum. Krónprinessan glímdi við átröskun um tvítugt, er guðmóðir þrettán barna og erfir krúnuna þegar faðir hennar stígur af stóli. 

Viktoría er elst þriggja systkina, fædd þann 14. júlí árið 1977 og verður því 37 ára í sumar. Foreldrar hennar eru Karl Gústaf Svíakonungur og eiginkona hans, Silvía Svíadrottning. Silvía er fædd í Þýskalandi. Systkini Viktoríu eru Karl Filippus, fæddur árið 1979 og Magdalena, fædd árið 1982.

Átti ekki alltaf að erfa krúnuna

Viktoría heitir reyndar fullu nafni Victoria Ingrid Alice Désirée. Taki hún við krúnunni eftir að faðir hennar stígur af stóli, verður hún fjórða drottning Svía og sú fyrsta síðan 1720.

Ekki var þó alltaf ljóst að hún væri næst í röðinni, því þegar hún fæddist voru enn við lýði lög sem kváðu um að synir ríkisarfa gengju fyrir dætrum, óháð aldri. Þegar prinsessan var þriggja ára gömul, var lögunum breytt og varð hún því krónprinsessa.

Að loknum framhaldsskólanámi árið 1996 hóf prinsessan nám í frönsku við kaþólska skólann í Angers í Frakklandi. Árið 1998 skráði hún sig í nám í Yale-háskólann í Bandaríkjunum þar sem hún lagði meðal annars stund á jarðfræði, sögu og alþjóðasamskipti. Viktoría kann ekki aðeins sænsku, heldur einnig ensku, frönsku og þýsku.

Krónprinsessan er guðmóðir þrettán barna. Þar á meðal er 16 ára prins Grikklands og Danmerkur, 10 ára prinsessa í Noregi, 9 ára prins í Danmörku og sex ára prinsessa í Belgíu.

Gekk yfir götu á rauðu ljósi til að forðast ljósmyndara

Fyrsti kærasti Viktoríu var Daniel Collert. Þegar prinsessan flutti til Bandaríkjanna árið 1998 til að leggja stund á nám og jafna sig eftir baráttu við átröskun, flutti Collert með henni. Samband þeirra var þó ekki staðfest fyrr en í september árið 2000 í viðtali. Þau hættu saman árið 2001.

Sænska blaðið Expressen greindi frá því í maí árið 2002 að Viktoría aftur komin í samband. Nú var það einkaþjálfari hennar og eiginmaður í dag, Daníel Westling.

Fljótlega var ljóst að hann kunni ekki við sig í kastljósi fjölmiðlanna. Ljósmyndarar festu meðal annars á filmu þegar hann gekk yfir götu á rauðu ljósi til að forðast myndatökur. Í júlí árið 2002 náðist fyrsti koss parsins á mynd.

Í febrúar 2009 fékk parið opinbert leyfi frá ríkisstjórn Svíþjóðar til að ganga í hjónaband en það er nauðsynlegt ef krúnuerfinginn vill halda stöðu sinni innan krúnunnar.

Viktoría og Westling gengu í hjónaband þann 19. júní árið 2010 í dómkirkjunni í Stokkhólmi og fagna því fjögurra ára brúðkaupsafmæli í dag. Talið er að rúmlega hálf milljón manna hafi safnast saman í Stokkhólmi á brúðkaupsdegi hjónanna og veifað sænska fánanum.  

„Þetta var mjög erfiður tími“

Fréttir um að Viktoría glímdi við átröskun fóru á kreik árið 1996 og var það staðfest árið eftir. Krónprinsessan fékk viðeigandi hjálp en þar sem hún var hluti af konungsfjölskyldunni fékk hún mikla athygli og gerði það henni erfiðara fyrir.

Hún hafði stefnt á nám við Háskólann í Uppsölum en ákveðið var að hún færi til Bandaríkjanna, hæfi nám við Yale-háskóla og fengi þar viðeigandi aðstoð, fjarri sænskum fjölmiðlum. 

„Þetta var mjög erfiður tími. Veikindi sem þessi eru mjög erfið, ekki aðeins fyrir þann sem veikist heldur einnig fyrir þá sem standa honum næst. Ég er í góðu lagi í dag,“ sagði Viktoría í viðtali við SVT2 í júní árið 1999.

Bókin „Viktoría, Viktoría!“ kom út í nóvember 2002 en þar er nánar fjallað um baráttu hennar við átröskunina. Þar sagði hún að henni hefði liðið eins og öllu í lífi hennar væri stjórnað af öðrum. „Eina sem ég gat stjórnað sjálf var maturinn sem ég borðaði,“ sagði í bókinni.

Nýtur mests trausts meðal Svía

Estelle, dóttir Viktoríu og Daníels kom í heiminn 23. febrúar árið 2012. Hún heitir fullu nafni Estelle Silvia Ewa Mary. Hún er önnur í röðinni að krúnunni á eftir móður sinni og ber því heitið erfðaprinsessa.

Þegar Estelle fæddist, bættist hún í hóp ungra stúlkna sem eru einnig næstar á eftir foreldri sínum til að erfa krúnuna. Þetta eru Ingrid Alexandra, prinsessa í Noregi, Elísabet prinsessa í Belgíu og Katarína Amalía, prinsessa í Hollandi.

Sænska dagblaðið Aftonbladet birti í fyrra niðurstöður skoðanakönnunar þar sem koma fram að Viktoría nyti mests trausts meðal Svía af hinni konunglegu fjölskyldu. Daníel, eiginmaður hennar, fylgir í fótspor hennar. 

Frétt mbl.is: Viktoría í sínu fínasta pússi

Frétt mbl.is: Prins­ess­unni er annt um norðrið

Frétt mbl.is: Prins­ess­an skoðaði Hörpu

Frétt mbl.is: Prins­ess­an á Bessa­stöðum

Frétt mbl.is: Féll í fang prins­ins í virkj­un­inni

Frétt mbl.is: „Gam­an að hitta al­vöru prins­essu“

Viktoría Svíaprinsessa fékk koss frá Ólafi Ragnari Grímssyni við komuna …
Viktoría Svíaprinsessa fékk koss frá Ólafi Ragnari Grímssyni við komuna á Bessastaði í gær. mbl.is/Golli
Estelle, erfðaprinsessa Svíþjóðar, er næst í röðinni að krúnunni á …
Estelle, erfðaprinsessa Svíþjóðar, er næst í röðinni að krúnunni á eftir móður sinni. AFP
Viktoría og Daníel ásamt Estelle, dóttur þeirra. Hún er tveggja …
Viktoría og Daníel ásamt Estelle, dóttur þeirra. Hún er tveggja ára í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert