Uppljóstrurum verður refsað

Frumvarpið heldur hlífðarskildi yfir áströlsku leyniþjónustuna.
Frumvarpið heldur hlífðarskildi yfir áströlsku leyniþjónustuna. AFP

Nýtt frumvarp var lagt fyrir ástralska þingið í gær sem gerir fréttaflutning blaðamanna af leyniaðgerðum áströlsku ríkisstjórnarinnar refsiverðan. Frumvarpið á að koma í veg fyrir uppljóstranir að hætti Edwards Snowdens, en The Guardian greinir frá þessu. 

Dómsmálaráðherra Ástralíu, George Brandis, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins á þinginu í gær. Hann vill rýmka völd áströlsku leyniþjónustunnar og bæta nýju ákvæði í refsilögin um uppljóstranir um leyniaðgerðir. Gerist blaðamenn eða aðrir brotlegir við ákvæðið varðar brotið fimm ára fangelsi.

Aukin refsing, eða tíu ára fangelsi, er fyrir uppljóstranir sem varða heilsu eða öryggi almennings eða sem hafa áhrif á framkvæmd sérstakra aðgerða áströlsku leyniþjónustunnar.

Þessar sérstöku aðgerðir leyniþjónustunnar eru nýjar af nálinni en starfsmenn leyniþjónustunnar sem taka þátt í slíkum aðgerðum frá friðhelgi gagnvart þeim saksóknum sem gætu komið í kjölfar aðgerðanna. Með öðrum orðum eru þeir undanskildir ábyrgð og verður ekki refsað fyrir brot gegn lögum sem öðrum yrði þó refsað fyrir.

Í frumvarpinu er einnig sérstakt refsiákvæði fyrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn leyniþjónustunnar sem á að kom í veg fyrir að upplýsingar leki til almennings.

George Brandis neitaði því í samtali við fréttastofu ABC að um herferð gegn blaðamönnum væri að ræða og segir að breytingarnar snúi einungis að formsatriðum. „Í gildandi löggjöf er refsivert að starfsmenn leyniþjónustunnar miðli upplýsingum til fjölmiðla. Hins vegar er ekki refsivert að afrita upplýsingarnar eða fjarlægja þær með öðrum hætti. Þetta nýja frumvarp gerir einnig ráð fyrir slíku,“ segir George Brandis, dómsmálaráðherra Ástralíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert