Myrtu áttatíu jasída í Írak

Embættismenn Sameinuðu þjóðanna telja að tugir þúsunda flóttamanna séu á …
Embættismenn Sameinuðu þjóðanna telja að tugir þúsunda flóttamanna séu á Sinjar-fjallinu, flestir þeirra jasídar. AFP

Liðsmenn úr röðum vígasveita Ríkis íslams, samtaka íslamista sem hafa stofnað kalífadæmi á yfirráðasvæðum sínum í Norður-Írak og Sýrlandi, myrtu að minnsta kosti áttatíu jasída í þorpinu Kocho, tiltölulega skammt frá Sinjar-fjalli í nótt. Íslamistarnir hafa ofsótt og hótað að lífláta jasída snúist þeir ekki til íslamskrar trúar.

Liðsmenn vígasveitanna komu til þorpsins fyrir fáeinum dögum og hótuðu strax öllu illu, að sögn talsmanna Kúrda. Þeir gáfu bæjarbúum aðeins nokkurra daga frest til að snúa til íslamskrar trúar. Sá frestur rann út í gærkvöldi.

Embættismenn Sameinuðu þjóðanna áætla að yfir 1,2 milljónir Íraka hafi flúið heimili sín vegna ófriðarins sem ríkir í landinu. Þeir hafa lýst yfir þriðja og hæsta stigi viðbúnaðar vegna neyðarástandsins, sama viðbúnaðarstigi og nú er í gildi í Sýrlandi, Suður-Súdan og Mið-Afríkulýðveldinu.

Örygg­is­ráð Sam­einuðu þjóðanna samþykkti í gær ein­róma álykt­un sem ætlað er að draga þrótt úr liðsmönn­um íslam­ista í Írak og Sýr­landi. Mark­miðið með henni er að stöðva fjár­magns­streymi til þeirra og liðssöfn­un þeirra er­lend­is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert