Lifir á túnfiski og núðlum

Eric Frein er nú eftirlýstur.
Eric Frein er nú eftirlýstur. Mynd:Wikipedia

Maður sem grunaður er um morð á lögreglumanni í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum gengur enn laus í skóglendi í norðausturhluta ríkisins. Maðurinn, sem er 31 árs, heitir Eric Frein og er talið að hann hafi skotið lögreglumann til bana 12. september. Jafnframt særðist annar lögreglumaður alvarlega í árásinni. 

Fjölmennt lið lögreglumanna og leitarhunda hefur leitað Freins síðan. Leitin fer fram í skóglendinu við bæinn Cresco en talið er að Frein hafi flúið þangað eftir að hann skaut mennina. 

Í gær tilkynntu lögregluyfirvöld á svæðinu að fundist hefði bréf sem talið er að Frein hafi skrifað. Í bréfinu er því lýst hvernig hann réðst á mennina og hvernig hann slapp. Fréttastofa CBS segir frá þessu.

Lögregluyfirvöld á svæðinu segjast hafa séð til Freins að minnsta kosti fimm sinnum í skóginum. Lögreglan er þó hikandi við að fara á eftir honum því hún óttast að hann hafi lagt gildrur í skóginum. Fjöldi heimagerðra sprengna hefur fundist í skóginum og talið er að Frein beri ábyrgð á þeim.

Fleira hefur fundist í skóginum sem talið er tilheyra Frein. Má þar nefna mat, skotfæri, bleiur og sígarettur. Lögregluyfirvöld telja að Frein lifi á túnfiski og núðlum í skóginum. 

Frein er enn talinn vopnaður og því hættulegur og eru mannaferðir stranglega bannaðar í skóginum meðan á leitinni stendur. 

Fyrri fréttir mbl.is

„Leita enn morðingjans“

„Skipulagði árásina í marga mánuði“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert