Ebólan er að sigra í kapphlaupinu

Ebólu-faraldurinn virðist ætla að hafa betur heldur er ríki heims, segir yfirmaður ebólu-teymis Sameinuðu þjóðanna, Anthony Banbury, en óttast er að þúsundir nýrra smita eigi eftir að líta dagsins ljós á næstu vikum. Alls eru 4.447 látnir úr ebólu, flestir í Vestur-Afríku, samkvæmt nýjum tölum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO.

„Hann (ebólufaraldurinn) hleypur hraðar en við og er að vinna kapphlaupið,“ sagði Banbury þegar hann ávarpaði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Á sama tíma vakna sífellt fleiri spurningar um hvernig hjúkrunarfræðingurinn gat smitast í Texas.

Ríkin Síerra Leóne, Líbería og Gínea hafa orðið verst úti en faraldurinn braust fyrst út í desember í fyrra en staðfesting fékkst ekki fyrr en í mars að um ebólu væri að ræða.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í gær að heimurinn eins og hann leggur sig væri ekki að gera nóg til þess að berjast við ebóluógnina. Hann mun fjalla um ebóluna á ráðstefnu í dag þar sem leiðtogar Bretlands, Frakklands, Þýskalands og Ítalíu, munu ræða ógnina sem blasir við.

Banbury ávarpaði öryggisráðið í gegnum myndútsendingu frá Vestur-Afríku. Hann segir að ef framrás faraldsins verður ekki stöðvuð nú blasi við heiminum staða sem engin áætlun er til um. 

„Ef við höldum ekki áfram baráttunni, ef við náum ekki markmiðum okkar og ef ebólusmituðum fjölgar jafn mikið og einhverjir hafa boðað, er ekki til nein áætlun sem tekur á vanda af þeirri stærð sem von er á.“

Hann segir þörf á meira fé til þess að koma á laggirnar meðferðarstöðvum og eins vanti fleiri heilbrigðisstarfsmenn til þess að sinna ebólusjúklingum.

Í gær kom fram í tilkynningu frá WHO að búast megi við því að 5-10 þúsund smitist í hverri viku á næstu tveimur mánuðum ef ekki verður gripið til samhæfðra aðgerða.

Alls hafa 8.914 tilvik smita verið staðfest of má búast við að þau fari yfir níu þúsund fyrir vikulok, samkvæmt frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert