Aftöku frestað vegna fjáröflunar

Rick Scott
Rick Scott AFP

Ríkisstjórinn í Flórída, Rick Scott, neitaði að svara því í kappræðum sem sýndar voru á CNN í gærkvöldi hvort hann vissi að ríkissaksóknari hefði beðið um að aftöku yrði frestað þar sem tímasetningin kæmir sér illa vegna fjáröflunar viðkomandi á sama tíma.

Scott, sem er repúblikani, fékk þessa spurningu frá keppinaut sínum um starfið, Charlie Crist, fyrrverandi ríkisstjóra sem er frambjóðandi demókrata. 

„Hún bað mig um að fresta henni þar sem dagsetningin reyndist ekki sú sem hún hélt. Hún baðst afsökunar. Hvað hefði hún átt að gera?,“ svaraði Scott.

Scott frestaði aftöku morðingjans Marshall Lee Gore í þrjár vikur að beiðni ríkissaksóknara, Pam Bondi, sem er einn dyggasti stuðningsmaður Scott. Bondi baðst síðar afsökunar og sagði í viðtali við Tampa Bay Times að aftöku Marshall Lee Gore hafi þegar verið frestað í tvígang fyrir dómstólum og ekki hefði átt að óska eftir því að dagsetningunni yrði breytt. Gore var síðan tekinn af lífi þann 1. október í fyrra.

Scott sagði í viðtali við Tampa Bay Times í fyrra að hann vissi ekki hvers vegna hún hefði óskað eftir því að aftökunni yrði frestað og neitaði að svara spurningu um hvort hann teldi pólitíska fjáröflun næga ástæðu til að fresta aftöku.

CNN

Huffington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert