Engin tengsl við Ríki íslams

Ekkert bendir til þess að Michael Zehaf-Bibeau, sem varð hermanni að bana í skotárás við stríðsminnisvarða í Ottawa í fyrradag og réðst síðan inn í þinghúsið, hafi haft tengsl við öfgasamtök íslamista í Mið-Austurlöndum, segir ríkisstjórn Kanada.

Yfirmaður öryggisvarða þinghússins skaut árásarmanninn til bana, aðeins um fimm metra frá herbergi þar sem Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, var að ræða við þingmenn í flokki sínum um hvernig bregðast ætti við hættunni sem stafar af róttækum íslamistum í Kanada.

Að sögn kanadískra fjölmiðla var árásarmaðurinn á sakaskrá fyrir fjölda lögbrota, meðal annars þjófnað og brot á fíkniefnalöggjöfinni. 

Utanríkisráðherra Kanada, John Baird, sagði í viðtali við BBC að Michael Zehaf-Bibeau hefði svo sannarlega verið öfgamaður en ekki á lista yfir hættulega einstaklinga. Lögreglan í Ottawa hefur gert myndskeið sem sýnir Zehaf-Biebau æða inn í þinghúsið.

Baird segir að ekkert áþreifanlegt hafi komið fram sem tengi Zehaf-Bibeau við Ríki íslams. Hann segist hins vegar hafa af því miklar áhyggjur hversu margir Kanadamenn séu öfgamenn og taki þátt í átökum í Sýrlandi og í Írak. Hann segir að Zehaf-Bibeau hefði getað valdið miklu meiri skaða en raunin varð því í nokkrar mínútur hafi ríkt algjör skelfing og enginn vitað hvort hann væri einn á ferð eða hvort það væri hópur manna að ráðast inn í þinghúsið.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert