Telja árásina snúast um pólitík

Lögreglan í Kanada segir að Michael Zehaf-Bibeau, sem skaut hermann til bana við kanadíska þinghúsið á miðvikudaginn og var í kjölfarið felldur af lögreglu þegar hann ætlaði að ráðast inn í bygginguna, hafi sett saman myndband af sjálfum sér áður en hann lét til skarar skríða. 

Haft er eftir Bob Paulson hjá kanadísku lögreglunni á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að myndbandið fæli í sér „sannfærandi sönnunargögn“ fyrir því að „hugmyndafræðilegar og pólitískar hvatir“ hafi legið að baki árásinni. Ennfremur að rannsókn standi yfir á myndbandinu og því sé ekki hægt að birta það að svo stöddu. Meðal annars sé til rannsóknar með hvaða hætti Zehaf-Bibeau hafi orðið sér úti um skotvopnið sem hann notaði en það er gamall 30 kalíbera Winchester-riffill en þeir voru fyrst framleiddir í lok 19. aldar.

Fram kemur í fréttinni að myndbandið sé stutt að sögn Poulson og að Zehaf-Bibeau sé ákveðinni í því og virðist skýr í hugsun. Hann hafi meðal annars undirbúið árásina með því að leggja fyrir fé sem hann hafi unnið sér inn í olíuiðnaðinum í Alberta-fylki í Kanada. Talið er að Zehaf-Bibeau hafi átt við andleg veikindi að stríða eins og mbl.is hefur fjallað um.

Michael Zehaf-Bibeau hleypur að kanadíska þinghúsinu.
Michael Zehaf-Bibeau hleypur að kanadíska þinghúsinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert