Fyrr heim eftir kaldar móttökur

Rússneskir fjömiðlar sögðu aðra leiðtoga hafa lagt sig fram um …
Rússneskir fjömiðlar sögðu aðra leiðtoga hafa lagt sig fram um að leggja forsetann rússneska í einelti á fundinum. AFP

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, yfirgaf G20-fundinn í Ástralíu fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir, eftir að hafa fengið fremur kaldar kveðjur frá öðrum fundarmönnum. Stjórnmálaskýrendur segja að óblíðar móttökurnar gætu leitt til frekari spennu í samskiptum Rússlands og vesturveldanna og jafnvel leitt til frekari átaka í Úkraínu.

Leiðtogar vesturveldanna settu mikinn þrýsting á rússneska forsetann á fundinum í Brisbane en gestgjafinn, Tony Abbot forsætisráðherra, hvatti hann m.a. til að bæta fyrir árásina á flug MH17, sem var skotið niður yfir austurhluta Úkraínu. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, kallaði Pútín „kúgara“.

Nú óttast menn að útreiðin sem forsetinn fékk á G20-fundinum hafi gert illt verra.

„Ef hann fór í fússi bíðið þá bara eftir því að átökin í Úkraínu magnist,“ sagði stjórnmálaskýrandinn Stanislav Belkovsky í samtali við AFP.

Pútín, sem hefur löngum leitast við að halda á lofti ímynd hins karlmannlega og óþreytandi leiðtoga, sagði svefnþörf og langt flug ástæður þess að hann hefði ákveðið að halda heim áður en fundinum lauk.

Þrátt fyrir heitt verður í Brisbane andaði köldu. Ástralska götutímaritið The Courier-Mail kallaði Pútín m.a. svarta sauð G20-fjölskyldunnar, en fjölmiðlar í Rússlandi sögðu hina leiðtogana leggja sig fram um að leggja Pútín í einelti.

AFP hefur eftir fleiri stjórnmálaskýrendum að aukin og harðari gagnrýni leiðtoga vesturveldanna og snemmbúin brottför Pútíns, bendi til þess að hvorugur aðili hafi áhuga á því lengur að viðhafa yfirborðskurteisi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert