Ungar konur flykkjast til sálfræðinga

mbl.is/hag

Stúlkur og ungar konur í Danmörku óttast mjög um geðheilsu sína og flykkjast þær til sálfræðinga. Ein af hverjum fjórum 19 ára stúlkum telja að þær glími við geðræn vandamál. 

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem fjallað er um á vef Berlingske í dag. Þar kemur fram að dapurleiki og einmannaleiki er sífellt meira áberandi meðal ungra kvenna. Þær eru kvíðnar og sjálfsvígstilraunum hefur fjölgað meðal þeirra.

Geðheilsa danskra barna og ungmenna hefur versnað mjög á undanförnum árum, segir í skýrslunni. Í rannsókn sem unnin var á vegum velferðarráðuneytisins var tæplega 7.700 börnum og ungmennum fylgt eftir. Árið 2009 var strax orðið ljóst að geðheilbrigði danskra ungmenna færi versnandi. Einkum meðal ungra stúlkna. 29% af 19 ára gömlum stúlkum höfðu leitað til sálfræðinga og geðlækna og 27% þeirra sem tóku þátt sögðust glíma við kvíða og öryggisleysi.

Mai Heide Ottesen, sem vann að rannsókninni, segir í viðtali við Berlingske að þessi þróun hafi haldið áfram og árið 2013 sé hlutfallið meðal 19 ára stúlkna sem hafa leitað aðstoðar hjá sálfræðingum og geðlæknum 35% og þeim sem segjast þjást af öryggisleysi eða kvíða hefur einnig fjölgað og eru þær nú 33% af úrtakinu.

Samkvæmt Berlingske hefur ein af hverjum tíu þurft á geðlyfjum að halda og 7% ungra kvenna og stúlkna hafa reynt að fremja sjálfsvíg. Þau börn og ungmenni sem eru í mestri hættu eru þau sem eru í hópi innflytjenda þar sem atvinnuleysi er algengt meðal foreldra. 

Hér er hægt að lesa greinina í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert