Hugurinn hjá farþegum og áhöfn

Beðið milli vonar og ótta eftir fréttum af örlögum flugvélarinnar.
Beðið milli vonar og ótta eftir fréttum af örlögum flugvélarinnar. AFP

„Hugur minn er hjá farþegunum og áhöfninni minni,“ skrifaði Tony Fernandes, framkvæmdastjóri AirAsia, á Twitter-síðu sína fyrr í dag, en ekkert hefur spurst til farþegarflugvélar flugfélagsins með 162 manns um borð frá því skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma. Flugvélin var þá á leiðinni frá Indónesíu til Singapúr. Fernandes sagðist ennfremur vera á leiðinni til borgarinnar Surabaya en flestir farþeganna eru þaðan.

Samband rofnaði við farþegaflugvélina um klukkutíma eftir að hún hóf sig á loft frá alþjóðaflugvellinum í Surabaya. Þá hafði hún samband við flugumferðarstjórn og óskaði eftir heimild til þess að breyta út af fyrri flugáætlun og hækka flugið til þess að komast yfir óveður sem var á svæðinu. Um eðlileg viðbrögð er að ræða við slíkar aðstæður segir í frétt AFP. Eftir það hefur ekkert heyrst frá flugvélinni og ekkert neyðarkall var sent út. Leit stóð yfir í morgun þar til myrkur skall á á svæðinu og hætta þurfti leit. Henni verður haldið áfram á miðnætti í kvöld að íslenskum tíma en þá er snemma morguna að staðartíma.

Fjöldi fólks hefur safnast saman á alþjóðaflugvellinum í Singapúr samkvæmt frétt AFP. Unnusti Louis Sidartha er meðal farþega flugvélarinnar en þau fóru með sitthvoru fluginu frá Indónesíu til Singapúr. Hún frétti ekki af hvarfi flugvélar AirAsia fyrr en eftir að hún kom sjálf á leiðarenda. Mikill fjöldi fólks hefur að sama skapi safnast saman á alþjóðaflugvellinum í Surabaya í von um fréttir af ættingjum og vinum. Litlum sem engum upplýsingum er hins vegar til að dreifa. Leit til þessa hefur engu skilað.

Kona á fimmtugsaldri tjáði AFP að hún ætti sex ættingja um borð í flugvélinni sem saknað er. Þeir hafi verið á leið til Singapúr í frí. „Þeir hafa alltaf flogið með AirAsia án vandræða. Ég hef miklar áhyggjur af því að flugvélin hafi hrapað.“ Samtals eru 162 manns um borð í flugvélinni og þar af sjö manna áhöfn. Flestir þeirra eru frá Indónesíu eða 155. Þrír eru frá Suður-Kóreu, einn frá Singapúr, einn frá Malasíu og einn Breti auk þess sem aðstoðarflugmaðurinn er franskur ríkisborgari.

Fréttir mbl.is:

Leit að flugvélinni frestað

Hefja leit að flugvélinni

Flugvélar AirAsia saknað

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert