„Við ælum á allt þetta fólk“

Teiknarinn Willem gefur lítið fyrir þann stuðning sem blaðið Charlie …
Teiknarinn Willem gefur lítið fyrir þann stuðning sem blaðið Charlie Hebdo hefur fengið frá ýmsum ráðamönnum eftir hryðjuverkaárásina á miðvikudag. AFP

Þekktur hollenskur teiknari, sem teiknar m.a. fyrir Charlie Hebdo, segist gefa lítið fyrir „nýju vinina“ sem blaðið hefur eignast eftir hryðjuverkaárásina sem gerð var á skrifstofur blaðsins á miðvikudag. Fréttastofan AFP greindi frá þessu fyrr í dag.

„Við höfum eignast marga nýja vini, eins og páfann, Elísabetu Englandsdrottningu og Pútín. Það fær mig til að hlæja,“ sagði Bernard Holtrop, eða Willem eins og hann kallar sig, við hollenska dagblaðið Volkskrant í dag.

„Formaður þjóðernissinnaða hægriflokksins Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, Marine Le Pen, er hæstánægð þegar íslamistar byrja að skjóta á allt og alla,“ sagði Willem, sem hefur búið lengi í París. Ásamt því að teikna fyrir Charlie Hebdo teiknar hann fyrir dagblaðið Liberation.

„Við ælum á allt þetta fólk sem segist núna vera vinir okkar,“ bætti hann við.

Aðspurður um stuðninginn við Charlie Hebdo eftir hryðjuverkaárásina sagði Willem fólkið sem nú styddi blaðið aldrei hafa lesið Charlie Hebdo.

„Fyrir nokkrum árum fóru þúsundir manna á götur Pakistans til að mótmæla Charlie Hebdo. Þau vissu þá ekki hvað það var. Nú hefur þetta snúist við. Ef fólk er hins vegar að mótmæla til að standa vörð um tjáningarfrelsið þá er það auðvitað góður hlutur.“

Í frétt AFP kemur fram að Willem hafi verið í lest á milli Lorient og Parísar þegar hann frétti af hryðjuverkunum á miðvikudag. Tveir menn réðust inn á skrifstofur blaðsins þegar vikulegur ritstjórnarfundur fór fram. Willem sagðist í samtali við Liberation aldrei hafa mætt á ritstjórnarfund þar sem honum líkuðu ekki slíkir fundir. „Ég býst við að það hafi bjargað lífi mínu.“

Willem ítrekar nauðsyn þess að útgáfu Charlie Hebdo verði haldið áfram. „Annars hafa þeir [íslamistarnir] unnið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert