Seðlabankinn snýr baki við Grikkjum

Schaeuble og Varoufakis eru á öndverðum meiði hvað varðar endurgreiðslu …
Schaeuble og Varoufakis eru á öndverðum meiði hvað varðar endurgreiðslu á skuldum Grikklands. AFP

„Eins og þetta blasir við mér, þá vorum við ekki einu sinni sammála um að vera ósammála,“ sagði Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, eftir fund sinn með fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfagang Schaeble, í dag.

Varoufakis og Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikkja, hafa fundað með evrópskum ráðamönnum í vikunni til að freista þess að endursemja um skuldir gríska ríksins, og fengið ágætar viðtökur. Ljóst er að stjórnvöld í Þýskalandi hyggjast hins vegar ekkert gefa eftir og tilkynnt hefur verið að Seðlabanki Evrópu muni framvegis ekki veita lán gegn veði í grískum ríkisskuldabréfum.

Nýkjörin stjórn í Grikklandi virðist þó hvergi smeyk og í dag ítrekaði Tsipras á gríska þinginu, að hann hygðist standa við þau loforð sem gefin voru í kosningabaráttunni.

„Við erum sjálfstætt ríki, við búum við lýðræði, við höfum gert samkomulag við þjóðina; við munum heiðra það samkomulag,“ sagði hann við mikið lófaklapp. „Óttinn er að baki í Grikklandi. Tími ógna og fjárkúgana er liðinn.“

Thanassis Diamantopoulos, stjórnmálafræðiprófessor við Panteio-háskóla í Aþenu, segir ákvörðun seðlabankans fyrsta skrefið í áttina að því að ná nýkjörnum stjórnvöldum í Grikklandi niður á jörðina.

Varoufakis hefur vísað til uppgangs nasismams í Þýskalandi í kjölfar fyrri heimstyrjaldarinnar sem áminningu um hvað gerist þegar þjóð er ýtt fram á brún örvæntingarinnar.

„Ég held að af öllum þjóðum Evrópu skilji Þjóðverjar þessi skilaboð best,“ sagði hann í samtali við ARD í Þýskalandi. „Ef þú niðurlægir stolta þjóð of lengi... án ljóss við enda ganganna, þá mun þrýstingurinn rísa í þessu landi, á einhverjum tímapunkti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert