Fyrsta aftakan í Missouri í ár

Walter Timothy Storey
Walter Timothy Storey Mynd frá fangelsismálayfirvöldum

Bandaríkjamaður sem var dæmdur til dauða fyrir að hafa brotist inn hjá nágrannakonu sinni í úthverfi St. Louis og skorið hana á háls fyrir aldarfjórðung var tekinn af lífi í nótt.

Walter Timothy Storey er fyrsti fanginn í Missouri sem er tekinn af lífi í ár eftir að nýtt met var sett í ríkinu í fyrra en alls voru aftökurnar tíu talsins það ár og hafa aldrei verið fleiri.

Hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði beiðni verjanda Storey um að aftökunni yrði frestað á grundvelli þess að óvissa væri um hvaðan pentobarbital lyfið kæmi sem nota ætti við aftökuna.

Bundinn niður á aftökubekknum muldraði Storey „Ég elska ykkur“ er hann horfði í átt að þeim sem voru mættir til þess að fylgjast með aftökunni. Þar á meðal hluti fjölskyldu fórnarlambs hans, Jill Frey. Nokkrum sekúndum síðar byrjaði hann að söngla eitthvað óskiljanlegt, samkvæmt frétt AP fréttastofunnar.

Byrjað var að gefa honum banvæna lyfið klukkan 00:01 að staðartíma og skömmu síðar hætti hann að söngla og dró djúpt andann í eitt skipti. Hann var úrskurðaður látinn klukkan 00:10.

Bróðir fórnarlambsins, Jeff Frey, segir að það hafi tekið á hversu lengi morðinginn fékk að lifa. Með aftökunni ljúki erfiðum kafla í lífi fjölskyldunnar. Hún muni ekki færa þeim Jill aftur né heldur draga úr þeirri sorg og sársauka sem fjölskyldan hefur þurft að ganga í gegnum.

Storey var dæmdur í þrígang til dauða fyrir morðið. Hann bjó á þessum tíma með móður sinni í St Charles en þann 2. febrúar 1990 hafði hann setið argur að sumbli en hann var afar ósáttur vegna skilnaðar sem hann var að ganga í gegnum. Þegar bjórinn var búinn og hann peningalaus ákvað hann að brjótast inn í íbúð nágranna síns, Frey og stela pening fyrir meiri bjór.

Frey, 36 ára kennari, hafði skilið eftir svalahurðina opna. Storey klifraði upp á svalir íbúar hennar og þegar hann mætti Frey inni í herbergi íbúðarinnar barði hann hana. Frey var meðal annars með sex rif brotin auk áverka í andliti og á höfði. Storey greip eldhúshníf og skar hana á háls. 

Storey forðaði sér út úr íbúðinni en daginn eftir kom hann aftur í íbúðina til þess að hreinsa upp blóð, henti fötunum í ruslið og skrúbbaði neglur á fingrum Freyt til þess að fjarlægja vegsummerki um sig. En Storey yfirsást blóðblettur á skenk þar sem fingraför fundust. Þegar leitað var í skrám lögreglunnar fannst samsvörun við fingraför Storey en hann var á skrá lögreglu vegna fyrri glæpa. Storey var í kjölfarið dæmdur til dauða en hæstiréttur Missouri sendi málið aftur í hérað. Hann var aftur dæmdur til dauða árið 1997 en sú niðurstaða var einnig send aftur í hérað. Það var síðan árið 1999 sem Storey var dæmdur í þriðja skiptið til dauða.

Upplýsingar um málið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert