Krefur New York ríki um bætur

AFP

Dani sem var sýknaður í New York í fyrra fyrir að hafa beitt börn kynferðislegu ofbeldi hefur höfðað mál gegn New York ríki og krefst þess að fá greiddar sjö milljónir Bandaríkjadala í bætur.

Í nóvember í fyrra var fallið frá öllum ákæruliðum gegn Malthe Thomsen 23 ára en hann hafði verið sakaður um að hafa beitt þrettán börn kynferðislegu ofbeldi á leikskóla þar sem hann var í starfsnámi, samkvæmt frétt danska ríkisútvarpsins.
Tólf af þrettán börnum, sem Thomsen var sakaður um að hafa beitt ofbeldi, neituðu því að hann hefði beitt þau kynferðislegu ofbeldi. Þrettánda barnið var sagt hafa gefið vísbendingar um að hafa verið beitt kynferðislegt ofbeldi en því ekki frekar lýst í hverju þær vísbendingar fólust. 

Þrátt fyrir engin sönnunargögn um sekt Thomsens var ítrekað þrýst á hann að játa sök en hann neitaði sök. 

Thomsen segir í viðtali við DR að það sem hann vill fyrst og fremst er að New York ríki viðurkenni að mistök voru gerð og rangt staðið að rannsókn málsins. Hann fer fram á það að hér eftir verði tekið upp af lögreglu yfirheyrslur á meðan þær standa yfir, það er allt frá upphafi til enda, ekki bara þegar játning kemur fram líkt og gert var í hans tilviki.

Hann fer fram á bætur vegna lögfræðikostnaðar en foreldrar hans greiddu lögmönnum 200 þúsund Bandaríkjadali vegna málsins. En eins vill hann fá bætur fyrir þann andlega þrýsting sem hann varð fyrir vegna málsins. Hann var fangelsaður og látinn dúsa á Rikers Islands þar til hann var látinn laus gegn tryggingu. Hann er enn hjá geðlækni vegna álagsins sem fylgdi ákærunni. Hann viðurkennir að það sé ekki fýsilegur kostur að mæta aftur í bandarískan réttarsal en hann vilji að réttvísin nái fram að ganga.

Samkvæmt frétt New York Times frá því nóvember  var Thomsen handtekinn þann 27. júní fyrra eftir að samkennari hans við International Preschools á East 45th Street tilkynnti hann til lögreglunnar. Eftir sjö tíma yfirheyrslur gaf hann út yfirlýsingu við lögreglu sem saksóknari áleit vera játningu en Thomsen sagði að hann hafi verið þvingaður til þess að gefa út yfirlýsinguna. Dómarinn vísaði málinu frá enda væri ekki um aðrar sannanir að ræða í málinu en þessa yfirlýsingu. Þegar Thomas yfirgaf réttarsalinn ásamt foreldrum sínum sagði hann að lögreglan hafi blekkt hann til þess að játa á sig glæp sem hann hafði ekki framið.

Saksóknarar höfðu vissar efasemdir um hversu traust vitni Mariangela Kefalas, kennarinn sem tilkynnti um Thomsen til lögreglu, væri. Myndskeið sem hún lét lögreglu fá af Thomson að störfum bentu ekki til þess að neitt saknæmt hefði átt sér stað en hún sagði að hann hefði látið börnin snerta kynfæri sín og eins hefði hann snert litlar stúlkur innan klæða. 

Kefalas, 28 ára, aðstoðarkennari við skólann sendi í lok maí í fyrra tölvupóst til skólastjórans og nokkrum dögum síðar hafði hún samband við lögreglu og afhenti tíu myndskeið sem hún hafði tekið af Thomsen með börnunum. Eftir að skólastjórinn fékk tölvupóstinn frá Kefalas fór fram innanhúsrannsókn á ásökunum sem leiddi ekkert saknæmt í ljós. Þann 5. júní var Kefalas sagt upp störfum og leitaði hún til lögreglu nokkrum dögum síðar. Í nóvember höfðaði hún síðan mál gegn skólanum sem hún sagði að hefði  brotið gegn lögum sem vernda uppljóstrara með því að reka sig frá störfum.

Dani sakaður um barnaníð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert