Eitraði fyrir syni sínum með salti

Lacey Spears ásamt syni sínum Garnett.
Lacey Spears ásamt syni sínum Garnett. Skjáskot af Twitter

Bandarísk kona hefur verið dæmd í fangelsi fyrir að eitra fyrir syni sínum. Hafði konan bloggað um heilsufar drengsins í mörg ár en hann var fimm ára þegar hann lést. Á konan að hafa eitrað fyrir drenginn með salti.

Konan heitir Lacey Spears og er 27 ára gömul. Í síðasta mánuði var hún dæmd í fangelsi í allt að tuttugu ár. Gæti hún þó þurft að sitja í fangelsi til æviloka. Sky News segir frá þessu. Var konan dæmd af kviðdómi í White Plains í New York í Bandaríkjunum.

Lést sonur Spears, Garnett, á síðasta ári. Á hún að hafa reglulega neytt í drenginn mikið magn af salti með slöngu sem lá frá munni drengsins ofan í maga.

Var Spears dugleg að tjá sig um meint veikindi drengsins á samfélagsmiðlum síðustu ár. Aldrei var þó vitað hvað nákvæmlega var að heilsu Garnetts. Halda saksóknarar því fram að Spears hafi myrt drenginn því hún óttaðist að hann myndi opinbera það að hún væri að eitra fyrir hann. Kom jafnframt fram í málflutningi saksóknara að Spears hefði elskað athyglina sem hún fékk út af meintum sjúkdómum Garnetts. 

Sagði saksóknarinn Patricia Murphy að Spears hefði þráð athygli frá fjölskyldu sinni, vinum, samstarfsfélögum og læknum. Sögðu læknar sem báru vitni í málinu að engin læknisfræðileg útskýring hefði verið á miklu natríummagni í líkama drengsins sem leiddi hann til dauða. 

Á samfélagsmiðlinum Twitter birti Spears færslu í nóvember 2009. Var þar mynd af henni og syni hennar þar sem fram kom að hann væri á sjúkrahúsi í 23. skiptið. „Biðjið fyrir því að hann komist heim fljótlega,“ skrifaði Spears. 

En á upptöku eftirlitsmyndavéla á sjúkrahúsinu mátti sjá Spears fara tvisvar með drenginn inn á baðherbergi með slöngu. Í bæði skiptin veiktist drengurinn í kjölfarið. 

Hélt Spears alltaf fram sakleysi sínu þó svo að tveir pokar með leifum af salti hefðu fundist í íbúð hennar. Bað hún vin sinn að fela annan þeirra. „Losaðu þig við hann og ekki segja neinum frá,“ sagði Spears við vininn. 

Samkvæmt frétt Sky News fannst jafngildi 69 saltpakka frá McDonald's í einum poka. Kom það fram í vitnisburði efnafræðings. Voru jafnframt færslur Spears á samfélagsmiðlum síðustu klukkustundirnar í lífi Garnetts notaðar sem sönnunargögn. Var hann þá í öndunarvél. 

Að mati saksóknara er Spears „útsmoginn barnamorðingi“ sem hafði lesið um á netinu hversu hættulegt natríum í miklu magni væri börnum. Sagði hann jafnframt að Spears hefði oft logið að læknum um heilsu Garnetts. Hélt hún því m.a. fram að hann væri með sjálfsofnæmi, svæðisgarnabólgu og eyrnasjúkdóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert