Halda áfram að klífa Everest

Fjallgöngur á Everest hefjast að nýju í næstu viku þrátt fyrir að átján hafi farist í snjóflóðum á fjallinu á laugardaginn. Nepölsk yfirvöld greindu frá þessu í dag.

Snjóflóð lögðu búðir fjallgöngumanna í rúst á laugardaginn og eins eyðilögðust stigar yfir Khumbu skriðjökulinn sem er mikill farartálmi á leiðinni á topp hæsta fjalls heims. Vegna þessa hafa verið efasemdir uppi um hvort hægt verði að heimila leiðöngrum að leggja á fjallið í ár. 

16 leiðsögumenn úr röðum sjerpa fórust í snjóflóði á Khumbu-skriðjöklinum18. apríl 2014. Sjerparnir voru þá að undirbúa göngu erlendra fjallgöngumanna.

 Þessi sorglegi atburður ýtti undir spennu milli erlendu fjallgöngumannanna og fátækra sjerpa sem taka mikla áhættu til að tryggja öryggi göngumannanna með því að fara í margar ferðir upp á skriðjökulinn fyrir ofan grunnbúðirnar til að koma fyrir reipum og flytja búnað upp á fjallið.

Nokkrir sjerpanna hótuðu að hætta að aðstoða göngumennina nema nepalska ríkið, sem hefur miklar tekjur af Everest-göngunum, hækkaði bæturnar til fjölskyldna þeirra sem fórust í snjóflóðinu. Deilan varð til þess að allir helstu skipuleggjendur leiðangranna hættu við göngur upp á fjallið á seinni hluta aprílmánaðar og í maí í fyrra, á þeim árstíma þegar flestir leggja á Everest.

 Ferðamálaráðuneyti Nepals segir að 335 manns hafi fengið leyfi til að klífa fjallið í ár, þeirra á meðal 118 sem fengu leyfið í fyrra en ákváðu að fresta göngunni vegna snjóflóðsins. Meðal þeirra eru Ingólfur Axelsson og Vilborg Arna Gissurardóttir. Ingólfur hefur tilkynnt um að hann fari ekki á Everest í ár eftir að þrír úr leiðangri hans fórust í snjóflóðinu á laugardag og allur búnaður hópsins eyðilagðist. Vilborg Arna hefur ekki gefið út yfirlýsingu um að hún sé hætt við að reyna við tindinn í ár en fimm úr hennar hópi fórust og búðirnar eyðilögðust.

Ráðuneytisstjóri í ferðamálaráðuneytinu, Tulsi Gautam, ráðleggur fjallgöngumönnum frá því að hætta við leiðangra sína og verið sé að bæta úr því sem eyðilagðist í snjóflóðinu. „Gert verður við stigana á næstu tveimur eða þremur dögum og fjallgöngum haldið áfram. Það er engin ástæða fyrir neinn að hætta við ferðalag sitt,“ segir Gautam í viðtali við AFP fréttastofuna.

Alls voru 800 á fjallinu þegar snjóflóðið reið yfir og 18 fórust og fjölmargir slösuðust. Það var jarðskjálfti upp á 7,8 stig sem setti flóðið af stað en alls eru yfir 5.500 látnir og yfir 11 þúsund slasaðir.

Þeir sem eru verst slasaðir hafa verið fluttir með þyrlum úr grunnbúðum Everest auk þess sem þeir voru komnir lengra á leið var bjargað niður. Að sögn Gautam hafa starfsmenn ráðuneytisins fundað með fjallgöngumönnum og leiðsögumönnum í vikunni og hafa þeir tekið vel í að halda ferðalaginu áfram. 

„Það er engin vísindaleg ástæða til þess að ætla að annar skjálfti ríði yfir,“ segir Gautam og bætir við að þeir telji undirlagið nægjanlega traust á fjallinu þrátt fyrir eftirskjálfta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert