„Þetta eru glæpamenn á mótorhjólum“

Af vef Europol

Að minnsta kosti níu liggja í valnum eftir skotbardaga á milli mótorhjólagengja í Texas í gær. Bardaginn í gær er einn blóðugasti bardaginn í sögu mótorhjólagengja í Bandaríkjunum.

Fjölskyldufólk fylgdist skelfingu lostið með bardaganum en meðlimir gengjanna réðust hver á annan með byssum, kylfum, hnífum og keðjum. Stærstur hluti bardagans fór fram fyrir utan Twin Peaks-veitingastaðinn sem er í verslunarmiðstöð í borginni Waco.

Fimm gengi tóku þátt

Að sögn lögreglufulltrúans Patrick Swanton tóku allt að fimm mótorhjólagengi þátt í bardaganum sem hófst um hádegi í gær að staðartíma. Swanton neitaði að greina frá nöfnum gengjanna en á ljósmyndum sem teknar voru á vettvangi í gær mátti sjá karlmenn klædda leðurjökkum merkta þremur gengjum, Bandidos, Cossacks og Scimitars.

Swanton sagði í samtali við fjölmiðla að meðlimir þessara gengja væru hættulegir. „Þetta er ekki hellingur af læknum og tannlæknum og lögfræðingum á mótorhjólum. Þetta eru glæpamenn á mótorhjólum,“ sagði Swanton. 

Að sögn Swanton hófust átökin vegna rifrildis vegna bílastæðis. Annar lögreglumaður sagði að gengin þyrftu þó enga ástæðu til þess að berjast, það eitt að hittast væri nóg.

Hafa deilt í 46 ár

Samkvæmt fréttaskýringu Sky News upphófust illindi á milli bandarískra mótorhjólagengja fyrst árið 1969 þegar meðlimur gengisins Outlaws nauðgaði eiginkonu meðlims gengisins Hells Angels. Í hefndarskyni börðu meðlimir Hells Angels nauðgarann næstum því til dauða í New York.

Í kjölfarið rændu meðlimir Outlaws þremur meðlimum Hells Angels og skutu þá. Lík þeirra fundust í grjótnámu í Flórída.

Síðan þá hafa átök á milli mótorhjólagengja í Bandaríkjunum verið reglulegur viðburður. En hvað er vitað um þau gengi sem tóku þátt í bardaganum í gær?

Morð, eiturlyfjasala, peningaþvottur og kúgun

Bandidos er stærstur hópanna þriggja. Talið er að meðlimir gengisins séu 2.400 talsins og starfi í 22 löndum, þar á meðal Kanada, Ástralíu, Danmörku, Þýskalandi og Frakklandi. 

Samkvæmt frétt BBC tekur um það bil tvö ár að verða fullgildur meðlimur Bandidos. Til þess að fá inngöngu í gengið þarf maður að þekkja meðlim, fara í gegnum reynslutímabil og borga um það bil 70 þúsund krónur. 

Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI hefur flokkað Bandidos, sem skipulagða glæpastarfsemi sem stundar glæpi eins og morð, eiturlyfjasölu, peningaþvott, kúgun og ólöglega vopnasölu. Klúbburinn var stofnaður af Donald Chambers, fyrrverandi hermanni í San Leon í Texas árið 1966. Kjörorð gengisins er „Við erum fólkið sem foreldrar okkar vöruðu okkur við“ eða „We are the people our parents warned us about.“

Merki klúbbsins er maður með sólhatt sem heldur á sverði og byssu. Samkvæmt almenningsvörnum Texas eru Bandidos hættulegasta mótorhjólagengi ríkisins og að sögn lögreglu bera þeir ábyrgð á gífurlega mörgum glæpum í Texas.

En fyrrverandi leiðtogi innan klúbbsins heldur því fram að klúbburinn sem heild hvetji ekki til ofbeldis. Edward Winterhalder, eða Connecticut Ed eins og hann er kallaður hefur haldið því fram að 90% meðlima séu „venjulegir menn í venjulegum vinnum með fjölskyldur eða menn á eftirlaunum“.

Bandidos tóku þátt í stríði gegn Hells Angels á Norðurlöndunum á árunum 1994 til 1997. Talið er að um ellefu manns hafi látist í því stríði en að meðlimir gengjanna hafi reynt að myrða 74 í viðbót. Voru skotbardagar, sprengingar og meira að segja árás með loftskeyti meðal viðburða í stríðinu. Meðlimir Bandidos notuðu loftskeytið til þess að sprengja upp fangaklefa þar sem félagi þeirra var í haldi.

Bandidos tengdust einnig mesta fjöldamorði í sögu Ontario í Kanada þar sem þeir myrtu átta meðlimi árið 2009. Voru morðin hluti af aðgerðum meðlimanna til þess að „hreinsa til“ innan gengisins. Sex meðlimir Bandidos voru dæmdir í lífstíðarfangelsi fyrir morðin. 

Bandamenn gegn Bandidos

Talið er að deilurnar á milli Bandidos og Cossacks hafi hafist árið 2013 en foringi Bandidos Curtis Jack Lewis á að hafa stungið tvo meðlimi Cossacks fyrir utan veitingastað í Texas.

Á ljósmyndum sem teknar voru í Waco í gær mátti sjá að meðlimir Cossacks eru aðallega hvítir og sumir með húðflúr sem sýna stuðning við nýnasista.

Cossacks-gengið var stofnað í Texas árið 1969. Litir gengisins er gull og svartur og merki þeirra er bardagamaður með sverð. Kjörorð gengisins er „Við sjáum um okkar“ eða „We take care of our own“.

Þó svo að gengið sé nokkuð fámennt í Bandaríkjunum er Cossacks-gengið eitt stærsta mótorhjólagengi Ástralíu.

Þriðja gengið sem vitað er að hafi tekið þátt í bardaganum í gær heitir Scimitars. Samkvæmt frétt Sky News er gengið í bandalagi með Cossacks og hefur áður stutt þá í átökum sínum við Bandidos.

Lítið er vitað um gengið sjálft fyrir utan að það var stofnað í Texas og merki þess er hauskúpa með rauð augu á tveimur bjúgsverðum.

Alls voru 192 handteknir við veitingastaðinn í gær en um tvö hundruð meðlimir gengjanna voru á veitingastaðnum þegar átökin brutust út. Eins og áður hefur komið fram létu níu lífið og átján særðust. Þeir eru allir meðlimir gengjanna. Allt að hundrað vopn voru gerð upptæk á staðnum. Þar má nefna byssur, hnífa og keðjur. 

Fyrri fréttir mbl.is:

Níu féllu í skotbardaga í Texas

Starfsfólkið faldi sig í frystiskáp

192 manns verða ákærðir

Mennirnir voru skotnir, lamdir og stungnir.
Mennirnir voru skotnir, lamdir og stungnir. Skjáskot af Twitter
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert