Föðurlandslögin ekki lengur í gildi

AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþings náði ekki samkomulagi um endurnýjun föðurlandslaganna svonefndu sem heimila Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna að fylgjast náið með fólki.

Föðurlandslögin voru sett fáeinum dögum eftir hryðjuverkin 11. september 2001 af George Bush Bandaríkjaforseta. Stjórn hans hélt því alltaf fram að þau hefðu reynst mikilvæg í baráttunni við hryðjuverk. Gildistími laganna hefur ítrekað verið framlengdur en þau hafa hins vegar tekið breytingum á þessum tæpu 14 árum. Samkvæmt lögunum mátti fylgjast með fólki sem ekki er grunað um hryðjuverk en hefur haft einhver samskipti við grunaða. Einnig máttu yfirvöld kanna á almenningsbókasöfnum hvaða bækur grunaðir fá að láni. 

Öldungadeildin hafði setið á rökstólum klukkustundum saman en á miðnætti, klukkan fjögur að íslenskum tíma, rann gildistími laganna út án samþykkis eftir að repúblikaninn Rand Paul kom í veg fyrir frekari aðgerðir. „Föðurlandslögin renna út í kvöld,“ sagði Paul, sem er einn þeirra sem stefna á embætti forseta Bandaríkjanna. Hann kom í veg fyrir að greidd yrðu atkvæði um tillögu sem samþykkt var í fulltrúadeildinni. Paul hefur gagnrýnt símhleranir njósnastofnana, segist þó ekki vera á móti öllum njósnum eða slíkri gagnasöfnun en lágmarkið sé að fenginn sé dómaraúrskurður fyrir hlerun.

Talið er fullvíst að lögin verði framlengd síðar í vikunni í breyttri mynd en eins og staðan er í dag er bandarískum yfirvöldum óheimilt að stunda hleranir líkt og gert hefur verið og Edward Snowden upplýsti eftirminnilega um árið 2013.

Bandaríska þinghúsið
Bandaríska þinghúsið AFP
Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, National Security Agency (NSA)
Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, National Security Agency (NSA) AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert